Mega jafnvel búast við öðrum stórum skjálfta

Skjálftarnir á suðvesturhorni landsins eru orðnir nokkuð margir síðasta sólarhringinn.
Skjálftarnir á suðvesturhorni landsins eru orðnir nokkuð margir síðasta sólarhringinn. Kort/Veðurstofa Íslands

Íbúar á suðvesturhorni landsins mega búast við því að jörð skjálfi eitthvað áfram, í nokkra daga eða jafnvel viku, eftir stóran skjálfta sem varð á Reykjanesskaga í gær. Jafnvel má búast við því að stórir skjálftar muni ganga yfir aftur. 

Þetta segir Sigríður Magnea Óskarsdóttir, náttúruvársérfræðingur, hjá Veðurstofu Íslands. 

Hrina eftirskjálfta er enn í gangi en 600 - 700 eftirskjálftar hafa mælst frá miðnætti. Skjálftarnir frá stóra skjálftanum sem gekk yfir rétt fyrir klukkan tvö í gær eru nú orðnir rúmlega 1.700 talsins.

„Í morgun, rétt rúmlega sex og rétt fyrir hálf sjö voru tveir jarðskjálftar, 3,7 og 3,8 að stærð,  nokkru vestar en í gær. Við höfum fengið tilkynningar um að þessir skjálftar hafi fundist á öllu Reykjanesinu, höfuðborgarsvæðinu og alla leið upp í Borgarfjörð,“ segir Sigríður.

Virknin færst vestar

Er virknin þá farin að breiðast út?

„Hún hefur alla vega færst [vestar] í nótt. Hvort hún færist aftur austur verður bara að koma í ljós,“ segir Sigríður. 

Er útlit fyrir að jörð skjálfi áfram út daginn?

„Yfirleitt eftir svona stóra skjálfta er oft virkni í nokkra daga, jafnvel viku eftir þá. Það má jafnvel búast við því að það geti orðið stórir skjálftar aftur. Það er ekkert útilokað,“ segir Sigríður. 

Hún segir skynsamlegt að fólks sé viðbúið stórum skjálftum. Íbúar geta t.a.m. undirbúið sig með því að fara inn á heimasíðu almannavarna og kynnt sér viðbúnað vegna jarðskjálfta og viðbrögð við þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert