Þrír fengið bætur vegna skjálftans

Sprunga í Krýsuvíkurbergi sem myndaðist eftir jarðskjálftann.
Sprunga í Krýsuvíkurbergi sem myndaðist eftir jarðskjálftann. mbl.is/Sigurður Bogi

Alls hafa 35 tilkynningar borist Náttúruhamfaratryggingu Íslands vegna jarðskjálftans sem varð vestur af Krýsuvík 20. október af stærðinni 5,6. Þar af eru 30 tilkynningar á húseignum og 5 á innbúi og lausafé.

Þetta segir Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratryggingar Íslands, spurð út í stöðu mála rúmum mánuði eftir skjálftann.

Niðurstaða er komin í mati á 20 húseignatjónum og hafa þrjú þeirra leitt til bóta.

„Í stórum hluta þeirra mála sem matsmenn hafa verið að skoða þá telja þeir að tjónið sé annað hvort undir eigin áhættu eða að ekki sé hægt að rekja skemmdirnar til jarðskjálftans,“ segir Hulda Ragnheiður. Þess vegna komi ekki til bóta en 400 þúsund króna eigin áhætta er á húseignatjónum. Vegna sóttvarnaaðgerða hefur ekki náðst að klára tjónamat á fleiri húsum.

„Það má segja að þessi jarðskjálfti hafi leitt í ljós að þrátt fyrir að hann hafi fundist á stóru svæði er sáralítið um skemmdir að ræða. Þetta sýnir að íslenskar húsbyggingar standast auðveldlega skjálfta af þessari stærð,“ segir Hulda.

Örfáar milljónir króna

Hún bætir við að vísbendingar úr hröðunarmælingum vegna skjálftans styðja mat matsmanna. „Ef það eru sérstakar aðstæður eins og óvenjuleg grundun og einhver veikleiki í eigninni getur hún að sjálfsögðu skemmst en við erum að telja þetta tjón á örfáum milljónum króna,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert