Tíu tilkynningar um tjón

Sprungan mikla í Krýsuvíkurbergi sem myndaðist í fyrradag.
Sprungan mikla í Krýsuvíkurbergi sem myndaðist í fyrradag. mbl.is/Sigurður Bogi
Ekki vitað um miklar skemmdir „Þetta var ekki stórkostlegur atburður með tilliti til skemmda, að því er okkur sýnist,“ sagði Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratryggingar Íslands (NTÍ), um stóra jarðskjálftann vestur af Krýsuvík 20. október.

„Þetta virðist hafa sloppið ótrúlega vel miðað við það sem við höfum frétt af enn sem komið er. Það virðast ekki hafa orðið neinar stórar skemmdir,“ sagði Hulda í gær. Þá hafði NTÍ fengið um tíu tilkynningar um mögulegar skemmdir af völdum jarðskjálftans. Engar gátu talist miklar. Tilkynningarnar bárust vítt og breitt að af höfuðborgarsvæðinu og ein úr Reykjanesbæ.

Hulda sagði að oft liðu nokkrir dagar áður en fólk tilkynnti um tjón af völdum náttúruhamfara. Tilkynningunum gæti því fjölgað.

Þeir sem telja sig hafa orðið fyrir tjóni vegna jarðskjálftans ættu að tilkynna það strax. Tilkynningarfrestur er eitt ár. Eigin áhætta er 2% af hverju tjóni, að lágmarki 200.000 krónur vegna tjóns á innbúum og lausafé og 400.000 vegna húseigna. Hulda sagði að við fyrstu sýn virtist meirihluti tjónanna vera undir eigin áhættu. Hvert mál er unnið sérstaklega. Fólk er beðið um að áætla upphæð tjónsins. Ef hún er hærri en eigin áhætta eru matsmenn sendir til að meta tjónið. gudni@mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert