Merking barmmerkjanna fari ekkert á milli mála

Guðmundur Oddur Magnússon, betur þekktur sem Goddur.
Guðmundur Oddur Magnússon, betur þekktur sem Goddur.

Guðmundur Oddur Magnússon, betur þekktur sem Goddur, segir að óafsakanlegt sé fyrir íslenska lögreglumenn að bera fána nýnasista á búningum sínum. Myndmál slíkra barmmerkja sé svo skýrt að ekki sé hægt að fara á mis við merkingu þeirra.

Nýlega birtust myndir af íslenskum lögreglumönnum með umdeild barmmerki á einkennisbúningum sínum.

„Það sem er að þessu er að íslenskir lögreglumenn eru búnir að heimfæra þessa merkingu yfir á sig - yfir á íslenska grunnformið. Með þessu ertu búinn að segja að þú sért þannig persónuleiki að þú vilt beita valdi gegn minnimáttar: útlendingum, innflytjendum og öðrum minnihlutahópum,“ segir Goddur, prófessor við Listaháskóla Íslands, í samtali við mbl.is um barmmerki sem lögreglukonan Aníta Rut Harðardóttir bar á einkennisbúningi sínum.

Þykir þetta leitt

Aníta sagði þó í samtali við mbl.is í gær að henni þyki leitt að hafa borið barmmerkin. Hún hafi ekki vitað merkingu þeirra og styðji ekki þann málsstað sem barmmerkin boða.

Eitt barmmerkjanna er svokallaður Vínlandsfáni, líkur íslenska fánanum nema með grænum flötum í stað blárra og svarts kross í miðjunni í stað þess rauða. Vínlandsfáninn er gjarnan notaður af bandarískum og norður-evrópskum nýnasistum.

Hér má sjá þau barmmerki sem lögreglukona lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu …
Hér má sjá þau barmmerki sem lögreglukona lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu bar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svipað og hönnunareinkenni þriðja ríkisins

Goddur segir svarta grunna og hvítar línur hafa einkennt þriðja ríki nasismans. Slík hönnunareinkenni vísa sterklega til dulspeki (e. occultism). Hann segir barmerkin benda til þess að slík hugmyndafræði hafi mögulega sáð fræjum innan íslensku lögreglunnar.

„Það að þetta sé komið inn í íslensku lögregluna og sé staðfært yfir á íslenska fánann bendir til þess að svona hugmyndafræði hafi ef til vill sáð fræjum innan lögreglunnar. Mér er sagt að lögreglumenn skiptist gjarnan á svona merkjum en einhver hlýtur að hafa framleitt þetta eða komið því í kring að þetta verði til.“

Vínlandsfáninn hefur verið notaður af öfgahægrihópum.
Vínlandsfáninn hefur verið notaður af öfgahægrihópum. Ljósmynd/Wikipedia

„Thin blue line“ nýtilkomið

Þekkt merki stuðningsmanna lögreglunnar í Bandaríkjunum er svokölluð „þunna bláa lína“ (e. thin blue line). Hún vísar til þeirrar þunnu línu lögreglumanna sem varna því að samfélagið leysist upp í óreiðu og óspektir. Þessi tákngerving hefur verið kennd við andstöðu gegn mótmælendum sem mótmæla lögregluofbeldi í garð svartra í Bandaríkjunum.

Í þessari mynd hefur „thin blue line“-fáninn verið notaður í …
Í þessari mynd hefur „thin blue line“-fáninn verið notaður í Bandaríkjunum, meðal annars sem merki „blue lives matter“-hreyfingunni, sem er andsvar við „black lives matter.“ Ljósmynd/Wikipedia

Spurður út í hvort þetta hafi eitt sinn verið saklaus tákngerving lögreglustarfsins sem nýlega hafi fengið neikvæðari formerki segir Goddur að það sé rangt. 

„Þetta er ekkert eitthvað „í gegnum tíðina.“ Þetta er tiltölulega nýleg framsetning sem einhverjir innan herbúða lögreglunnar í Bandaríkjunum móta. Það að þetta sé komið inn í hugarheim lögreglunnar hér á landi gefur til kynna að þessi hugmyndafræði hafi sáð fræjum innan embættisins.“

mbl.is

Bloggað um fréttina