„Fyrir 67 árum fæddist myndardrengur“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir er afmælisbarn dagsins.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir er afmælisbarn dagsins. Ljósmynd/Lögreglan

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á afmæli í dag og er 67 ára gamall. Tónlistarhópurinn „Vinir og vandamenn“ sendi honum afmæliskveðju á Facebook með hressu lagi. Þar er hann meðal annars sagður „landsins eina von“ í baráttunni við kórónuveiruna. 

„Fyrir 67 árum fæddist myndardrengur sem varð landi og þjóð mikill happafengur, hann sleit barnsskóm í Eyjum og þótti algert æði. Hann námi sínu sinnti af elju og natni þó hann djammaði örlítið á Laugarvatni en fór svo til Árósa og lærði læknisfræði,“ syngur hópurinn sem er skipaður fólki úr öllum aldurshópum. 

Leifur Geir Hafsteinsson leiðir tónlistarhópinn en í myndbandinu má sjá fjölda fólks, þar á meðal Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, og Björn Inga Hrafnsson, ritstjóra Viljans. 

„Við viljum að þú vitir og finnir að við, og margir margir margir fleiri Íslendingar, stöndum heils hugar á bak við þig og þín afburðagóðu og fórnfúsu störf í þágu lands og þjóðar. Við getum ekki ímyndað okkur hvers konar álag það er að þurfa að taka allar þær ákvarðanir sem þú hefur á herðunum, þurfa að taka tillit til allra þeirra sjónarmiða og hagsmunaaðila sem störf þín snerta og að halda sönsum í gegnum það allt. En hitt vitum við og sjáum að þú höndlar það eins og allt annað með algjörum glæsibrag. Þú ert snillingur og okkur þykir mjög vænt um þig,“ segir í kveðjunni sem myndbandinu fylgir. 

K100 ræddi við afmælisbarnið í morgun en hljóðbrotið má finna hér.

mbl.is