Krefjast aðgerða

Efri röð frá vinstri: Gundega Jaunlinina (ASÍ-UNG), Jóhanna Ásgeirsdóttir (LÍS), …
Efri röð frá vinstri: Gundega Jaunlinina (ASÍ-UNG), Jóhanna Ásgeirsdóttir (LÍS), Ólafur Hrafn Halldórsson (UP). Neðri röð frá vinstri: Ragna Sigurðardóttir (UJ), Sanna Magdalena Mörtudóttir (Ungir sósíalistar), Starri Reynisson (Uppreisn). Ljósmynd aðsend

Nær helmingur atvinnulausra í landinu er ungt fólk á aldrinum 18 til 35 ára samkvæmt nýjustu tölum Vinnumálastofnunar. Þessi alvarlega staða ungs fólks á vinnumarkaði kallar á afdráttarlausar aðgerðir af hálfu stjórnvalda. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá forystufólki Samtaka ungs fólks innan ASÍ (ASÍ-UNG), Landssamtaka íslenskra stúdenta (LÍS) og ungliðahreyfinga nokkurra stjórnmálaflokka um atvinnuleysi ungs fólks.

Skora þau á ríkisstjórn Íslands og þingheim allan að taka höndum saman og bregðast við vandanum. 

„Að baki áðurnefndum tölum um atvinnuleysi eru um tíu þúsund manns á aldrinum 18 til 35 ára, vítt og breitt um landið, sem vilja vinna en fá ekki vinnu. Ungt fólk er að jafnaði verr varið fyrir efnahagslegum áföllum en aðrir aldurshópar þar sem það stendur veikar á vinnumarkaði, á minni eignir en eldri hópar, þarf gjarnan að vinna með námi, sjá fyrir börnum og þar fram eftir götunum. Þá benda rannsóknir til þess að viðvarandi atvinnuleysi ungs fólks geti haft langvinn neikvæð áhrif á starfsmöguleika og tekjur. Loks liggur fyrir að ungt fólk hefur dregist aftur úr í kaupmáttaraukningu síðustu áratuga, ekki síst frá bankahruninu 2008.

Nú ríður yfir alvarlegasta atvinnukreppa á Íslandi frá upphafi mælinga en neikvæð efnahagsáhrif af völdum veirunnar skiptast með afar ójöfnum hætti. Brýnt er að almenn umræða um efnahags- og atvinnumál taki mið af þeim staðreyndum sem hér eru settar fram um stöðu ungs fólks.

Fjölgum störfum

Enn hefur ekki verið sett fram nein skýr áætlun af hálfu stjórnvalda um að ná niður atvinnuleysi og fjölga störfum. Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að atvinnuleysi minnki um 1 prósentustig á árinu 2021 og byggir sú áætlun á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands sem aftur tekur mið af fjárlögum og fyrirliggjandi gögnum um fjárfestingar hins opinbera.

Við köllum eftir því að forystufólk ríkisstjórnarinnar og allra stjórnmálaflokka setji fram ítarlega áætlun um það hvernig megi ná niður atvinnuleysi og fjölga störfum. Í ljósi stöðunnar í hagkerfinu er þetta eitt allra stærsta einstaka hagsmunamál ungs fólks á Íslandi.

Styðjum við atvinnulausa

Það blasir við að efnahagskreppan af völdum veirunnar bitnar einna verst á þeim sem missa vinnuna og fjölskyldum þeirra. Ríkisstjórnin hefur lengt tekjutengingartímabil atvinnuleysisbóta úr þremur mánuðum í sex en eftir að tekjutengingu sleppir eru bætur atvinnuleysistrygginga undir 240 þúsund krónum eftir skatt. Sú upphæð er óbreytt síðan kórónuveiran skall á þrátt fyrir að atvinnumissir sé mun verra áfall nú en áður í ljósi þess hve erfitt fólki getur reynst að finna nýja vinnu. Þá er stúdentum sem hafa unnið með námi enn neitað um rétt sinn til atvinnuleysistrygginga þó tryggingagjald sé innheimt af launum stúdenta eins og allra annarra.

Við köllum eftir því að forystufólk ríkisstjórnarinnar og allra stjórnmálaflokka létti enn frekar undir með atvinnulausum og fjölskyldum þeirra. Það er réttlætismál og snýst um samstöðu með þeim sem bera þyngstar byrðar í yfirstandandi efnahagsþrengingum,“ segir meðal annars í yfirlýsingu frá hópnum en undir hana rita Gundega Jaunlinina, formaður Samtaka ungs fólks innan ASÍ (ASÍ-UNG),

Jóhanna Ásgeirsdóttir, forseti Landssamtaka íslenskra stúdenta (LÍS),

Ólafur Hrafn Halldórsson, formaður Ungra Pírata (UP),

Ragna Sigurðardóttir, forseti Ungra jafnaðarmanna (UJ),

Sanna Magdalena Mörtudóttir, fyrir hönd Ungra sósíalista og

Starri Reynisson, formaður Uppreisnar.

mbl.is