Utanvegaakstur kærður til lögreglu

Frá Bjarnarflagi í Mývatnssveit. Myndina tók landvörður Umhverfisstofnunar.
Frá Bjarnarflagi í Mývatnssveit. Myndina tók landvörður Umhverfisstofnunar. Ljósmynd/Umhverfisstofnun

Umhverfisstofnun hefur borist ábending um utanvegaakstur í Bjarnarflagi í Mývatnssveit. Í eftirlitsferð komu mjög slæm för í ljós eftir akstur mótorkrosshjóla í sendnum mel, hann er útspólaður og með djúpum förum. Af ummerkjum að dæma hefur aksturinn átt sér stað á allra síðustu dögum. 

Stofnunin mun vísa þessum náttúruspjöllum til lögreglunnar á Norðurlandi eystra, að því er segir í tilkynningu. 

Umhverfisstofnun hafa ítrekað borist ábendingar um skemmdarakstur mótorkrosshjóla í náttúru landsins undanfarin misseri.  Vill stofnunin ítreka að þessi akstur vélknúinna hjóla er brot á náttúruverndarlögum. Sérstök mótorkrosssvæði hafa verið byggð upp víðsvegar um landið í þeim tilgangi að skapa vettvang fyrir þessa iðju.

mbl.is