Ræða Arnarholt „strax á morgun“

Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar og formaður velferðarráðs Reykjavíkur.
Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar og formaður velferðarráðs Reykjavíkur. mbl.is/Golli

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar, segir að málefni vistheimilisins Arnarholts verði tekin til skoðunar innan ráðsins strax á morgun. 

RÚV greindi í kvöld frá því að veikt fólk sem dvaldi á Arnarholti á Kjalarnesi til ársins 1971 hafi verið sett í einangrun í litlum fangaklefa vikum saman eftir því sem fram kemur í tæplega 50 ára gömlum vitnaleiðslum yfir starfsfólki. 

Arn­ar­holt var fyrst opnað árið 1945 og var rekið af Reykja­vík­ur­borg til 1. september 1971. Í vitna­leiðslum yfir starfs­mönn­un­um 24 er því meðal ann­ars lýst hvernig vist­mönn­um var refsað með því að vera neitað um mat. Þá virðist þeim einnig hafa verið refsað með því að vera læst­ir úti hvernig sem viðraði. Al­geng­ast virðist hafa verið að heim­il­is­mönn­um væri refsað með því að vera sett­ir í stein­steypt­an ein­angr­un­ar­klefa með ein­um litl­um glugga sem búið var að setja járnrimla fyr­ir. 

Al­var­leg­ustu at­vik­in sem greint var frá í vitna­leiðsl­un­um varða þó and­lát heim­il­is­manna sem virðast hafa verið nokkuð tíð á þess­um tíma og lýs­ir starfs­fólkið nokkr­um slík­um til­vik­um. Greindu starfs­menn meðal ann­ars frá því að þegar það upp­götvaðist dag einn að kona sem bjó á heim­il­inu væri týnd og að henn­ar hafi verið saknað frá deg­in­um áður hafi leit ekki verið haf­in, en kon­an fannst lát­in í flæðar­mál­inu stuttu síðar.  

Heiða Björg segir að málið verði skoðað innan velferðarráðs. 

„Þetta var auðvitað bara hræðileg frétt og ömurlegur aðbúnaður sem fólk hefur greinilega búið við þarna. Við munum skoða þetta bara strax á morgun og fá upplýsingar um hvernig þetta var og hvernig aðkoma borgarinnar var,“ segir Heiða í samtali við mbl.is.

„Mér finnst þetta hljóma mjög alvarlegt og það er mikilvægt að skoða þetta og læra af. Það er hörmulegt ef borgin hefur tengst svona máli á sínum tíma,“ segir Heiða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert