Eins og að segjast ætla að byggja hús á lóð nágrannans

Kristín Soffía Jónsdóttir.
Kristín Soffía Jónsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristín Soffía Jónsdóttir, stjórnarformaður Faxaflóahafna og borgarfulltrúi Samfylkingar fer hörðum orðum um áform kaupsýslumannsins, Tan Sri Vincent Tan um byggingu hótels á Miðbakkanum í Reykjavík. Segist hún ekki sjá fyrir sér að uppbygging Miðbakkans fari til eins einkaaðila. Þá telur hún óeðlilegt að sótt hafi verið um að byggja á lóð sem ekki er eigu kaupsýslumannsins. 

„Að Geirsgötu 11 undanskilinni er Miðbakkinn í eigu hafnarinnar og Vincent Tan hefur ekki sótt um úthlutun á lóð til hafnarinnar. Hann hefur engin vilyrði fyrir því að hann geti byggt á Miðbakkanum. Það sem áformin snúast um eru langt umfram skipulag, langt umfram gildandi skipulagslýsingu og það er engin samningur til á milli hans og hafnarinnar," segir Kristín Soffía. 

Ekkert sem gefur til kynna að heimild fáist

Fram kemur í máli Tryggva Þórs Herbertssonar, sem heldur utan um verkefnið, í samtali við Morgunblaðið í dag að 40 milljarða fjármögnun sé tryggð. Vincent Tan hefur þegar keypt lóð á Miðbakkanum sem áður hýsti skemmur Brims. Áformin sem um ræðir ná hins vegar inn á lóð Faxaflóahafna á Miðbakkanum við Geirsgötu. Um er að ræða 30 þúsund fermetra hótelbyggingu. 

Geirsgata 11.
Geirsgata 11.

Búið er að fara með málið til fyrir skipulagsfulltrúa til umsagnar. Segir Tryggvi að enn eigi eftir að hnýta lausa enda. Kristín hnýtir hins vegar í það orðalag. „Þetta er eins og ég myndi fara í Moggann með teikningar af húsi sem ég segðist vilja byggja í garðinum þínum. Án þess að vera með lóð, vilyrði eða samninga þess efnis. Það eru eflaust margir sem vilja byggja á Miðbakkanum. En hann hefur ekkert með sér sem gefur til kynna að hann muni nokkurn tímann fá að byggja á þar,“ segir Kristín.

Ertu þá að útiloka það hér með að heimild fáist?

„Ég sé það í það minnsta ekki fyrir mér að ef Miðbakkinn verður byggður upp, að honum verði beinlínis úthlutað til eins einkaaðila. Án þess að þar fari fram þarfagreining, hugmyndasamkeppni og hann almennt boðinn út. Ég sé það verklag ekki fyrir mér opið svæði í Reykjavík verði afhent án frekari formála. Við höfum fengið fjölmargar fyrirspurnir um byggingar á Miðbakkananum. Óteljandi hugmyndir að hótelum. Auðvitað er sjálfsagt að fólk fái hugmyndir. En allt tal um að hnýta beri nokkra lausa enda er undarlegt þegar sannleikurinn er sá að þú ert ekki með lóð og ekki með skipulag fyrir þessum framkvæmdum,“ segir Kristín Soffía.

Vincent Tan hefur áform um byggingu stórs hótels við Geirsgötu.
Vincent Tan hefur áform um byggingu stórs hótels við Geirsgötu.

Höfnin verði að virka sem höfn

Kristín telur að byrjað hafi verið á röngum enda þegar óskað var eftir umsögn í skipulagsráði um breytingu á lóðinni. Eðlilegra hefði verið að tala við Faxaflóahafnir fyrst. Furðar hún sig á þessu vinnulagi. „Það er furðulegt að sækja um breytingu á skipulagi á lóð sem þú hefur ekki til umráða,“ segir Kristín. 

Talað er um 40 milljarða uppbygginu í þessum efnum finnst þér það engu skipta?

„Auðvitað skipta rekstrarlegar forsendur og fjármagn máli í rekstri hafnarinnar. En það verður líka að horfa til þess að Miðbakkinn er einstakt svæði í borginni. Við erum búin að byggja mjög þétt að höfninni og mörgum finnst hafa verið þrengt um of að henni. Ég sé ekki fyrir mér að við séum í náinni framtíð að bæta við uppbyggingu þarna. Höfnin þarf að virka sem höfn fyrst og fremst og við yrðum að pissa í skóinn okkar ef við rýrum gildi hafnarinnar. Hún þarf áfram að geta sinnt sínum verkum,“ segir Kristín Soffía.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert