Sjá ógnir þar sem engar eru

Heilastarfsemi barna sem alast upp við heimilisofbeldi er öðruvísi en barna sem alast upp við eðlilegar aðstæður. Þau eru ofurnæm og skynjun þeirra breytist segir Brynhildur Jónsdóttir sálfræðingur og rekstrarstýra Kvennaathvarfsins. Hún ræddi um áhrif áfalla á heilaþroska barna á kynjaþingi sem nú stendur yfir.

Heilinn  þroskast  þó  ekki  allur  á  sama  hraða en nýjustu  og þróuðustu  hlutar heilans  eru  síðastir  til  að  ná fullum  þroska. Framheilinn nær  ekki  fullum  þroska  fyrr en á  árunum eftir  tvítugt.  „Það má  segja  að hlutverk  framheilans sé  æðri  hugsun,  þar fer  fram skipulagning  á flóknu  atferli,  sem  birtist  t.d.  í  því  að  geta séð  fyrir  afleiðingar  gerða sinna  og  að  hafa stjórn  á viðbrögðum/hvötum  sínum  í  samræmi við  aðstæður svo  fátt  eitt sé  talið.

Börn  eru  gjarnan mjög hvatvís  og  geta verið  óviðeigandi  í  félagslegum  aðstæðum, en  það  er  inmitt af því að framheilinn þeirra hefur ekki  þroska til annars.

Á hinn bóginn höfum við strúktúr sem heitir möndull (amygdala) sem er orðinn fullþroska  mörgum árum áður en framheilinn verður  að. Eitt af hlutverkum mönduls er að skynja  hættu í umhverfinu. Þegar það gerist þá kemur möndullinn af stað losun öflugra streituhormóna sem auka hjartslátt, blóðþrýsting og öndun og ótal annað sem allt undirbýr  okkur undir að berjast eða flýja. Um leið og hættan er liðin hjá, þá fer líkaminn nokkuð fljótt  aftur í sitt fyrra horf. Sumir hafa kallað möndulinn öryggisvörð eða brunabjöllu. Ef  möndullinn er brunabjallan, þá getum við kallað framheilann varðturninn. Hann hefur yfirsýn  yfir sviðið, getur vegið og metið aðstæður, sagt til um hvort brunabjallan sé að glymja vegna þess að eitthvað sé  að brenna á pönnunni og við þurfum að bregðast við strax, eða hvort  þetta er brunalykt sem kemur úr fjarska inn um gluggann og við getum verið örugg inni hjá  okkur. Framheilinn er þess vegna mikilvægur til þess að slökkva á brunabjöllinni,“ segir Brynhildur.

Þegar eitthvað gerist sem minnir á áfallið, til að mynda einhver hækkar röddina nálægt þeim fer viðvörunarkerfi heilans í gang. Áföll skemma þannig fyrir virkni viðvörunarkerfis heilans – brunabjöllunnar. Hún er einfaldlega of virk og fer of oft í gang segir Brynhildur. 

Þetta getur líka haft þau áhrif að virknin minnkar í framheilanum sem veldur því að þau eiga erfiðara með að bregðast rökrétt við segir Brynhildur.  

Góðlátlegt klapp túlkað sem árás

Rannsóknir sýna að heili fullorðinna sem hafa upplifað ofbeldi í æsku er öðruvísi en þeirra sem fengu gott atlæti. Áfallabörnin geta séð ógnir þar sem engar eru. Góðlátlegt klapp á öxl getur verið túlkað sem árás eða orð sem sögð eru í hálfkæringi eru túlkuð sem ógn segir Brynhildur.

Geta ekki setið kyrr eða einbeitt sér

Lífsgæði barna eru ólík og atriði eins og ofbeldi geta …
Lífsgæði barna eru ólík og atriði eins og ofbeldi geta breytt allri framtíð þeirra. AFP

Áreiti sem börn kippa sér venjulega ekki upp við geta orðið til þess að áfallabörn slá frá sér eða draga sig alveg inn í skel sína. Þegar einstaklingur er líka með viðvörunarkerfið hátt stillt þá getur viðkomandi ekki setið kyrr eða einbeitt sér. Enda hafa rannsóknir sýnt að börn sem búa við heimilisofbeldi eiga oftar í námserfiðleikum en önnur börn að sögn Brynhildar.

Þau eru tilfinningalega berskjölduð, eru með verra sjálfstraust og upplifa heiminn sem hættulegan. Þau eru einnig líklegri til að glíma við þunglyndi. Þau eru sett út á ákveðna braut sem veldur því að þau eru byrjuð að lenda í vandræðum strax á unga aldri. Hættan er að ástandið vindi upp á sig ef ekki er gripið inn í segir Brynhildur og að mikilvægt sé að hlúa vel að þessum einstaklingum. Börnum sem fæddust inn í aðstæður sem þau höfðu enga stjórn á. Með inngripum minnka líkurnar á að þau beiti ofbeldi sjálf sem er ábyggilega mikill sparnaður fyrir heilbrigðiskerfið segir Brynhildur. 

Jenný Kristín Valberg kynjafræðingur og ráðgjafi í Kvennaathvarfinu flutti erindi á fundinum sem bar heitið Börn á ofbeldisheimilum  í því erindi var meðal annars frásögn tveggja stúlkna sem bjuggu við heimilisofbeldi.

Varð til þess að hún var lögð í einelti

Ofbeldið hafði mikil áhrif á þær. Önnur lýsti ótta sem hún upplifði stöðugt og hafði þau áhrif að hún glímir við áfallastreituröskun í dag. Hún hafi alltaf verið öðruvísi en aðrir krakkar og bara það að koma með krakka heim hafi haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. 

Bara það að gleyma að setja öryggiskerfið í gang, þrátt fyrir að muna eftir því að læsa og slökkva, kostaði það hana kvöldmatinn og reiðikast föður. Hún segir að heimilisofbeldið hafi valdið því að hún var lögð í einelti alla grunnskólagönguna. Mest vegna þess að hún hafði litla sem enga samskiptahæfileika. Hún var líka lögð í einelti fyrir að vera skapstór en hún þekkti ekkert annað. Pabbi lét svona og því fannst mér það eðlilegt segir hún. 

Hún segir að allir kennararnir hafi vitað hvernig aðstæður hennar voru en þar sem henni gekk vel í skóla þá gerðu þeir ekki neitt. 

Látin sitja úti 

Hin stúlkan lýsti því hvernig stjúpfaðir hennar hataði hana og litla bróður hennar. Hvernig hann stjórnaði öllu heimilinu, hvað þau fengu að borða og hvað þau gerðu. Þau máttu ekki fara á klósettið eftir að ljósin voru slökkt og hún gleymi því ekki hversu vont það var að vera í spreng en þora ekki að fara á klósettið. Einn daginn hafi hún ekki slökkt ljósið í herberginu sínu og fyrir það hafi hann brotið stólinn hennar. Sum kvöld hafi hún þurft að sitja á tröppunum fyrir utan húsið þar sem enginn vildi eða þorði að hleypa henni inn. Þau systkinin hafi fengið að flytja inn í bílskúrinn þegar hún var 16 ára. Það var hins vegar oft mjög kalt að næturlagi.

Hún hafi ekki enn fyrirgefið stjúppabba sínum þrátt fyrir að mamma hennar hafi farið frá honum fyrir fimm árum. Hann hafi heldur sett sig í samband við hana og beðist afsökunar á því sem hann gerði. 

„Ég náði aldrei að vera áhyggjulaus unglingur,“ segir hún en hún þurfti að sjá fyrir sér og litla bróður sínum og bera ábyrgð á honum. Hún hafi mjög snemma þurft að verða fjárhagslega sjálfstæð og sjá sér fyrir mat. Andlegt ofbeldi er mjög oft falið og að nánustu ættingjar hafi ekki einu sinni vitað hversu slæmt ástandið var á heimilinu. Enn í dag bregði henni við óvænt hljóð og það sem sé á hreinu að hún viti hvað börnin hennar muni ekki þurfa að ganga í gegnum. 

Skýrsla UNICEF

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert