Ási í Bæ var skáld og aflakló

Áki Gränz gerði styttuna, Ísfélag Vestmannaeyja lét gera afsteypu af …
Áki Gränz gerði styttuna, Ísfélag Vestmannaeyja lét gera afsteypu af styttunni. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Stytta af Ása í Bæ hefur verið sett upp við höfnina í Vestmannaeyjum. Eyjamaðurinn Áki Gränz, listmálari og myndhöggvari, gerði styttuna að beiðni Árna Johnsen. Fyrirmyndin var ljósmynd sem Sigurgeir Jónasson, ljósmyndari Morgunblaðsins, tók af Ása. Ísfélag Vestmannaeyja kostaði gerð bronsafsteypu af styttunni og uppsetningu hennar.

„Ási í Bæ er einn af menningarfrömuðum Eyjanna. Hann setti mikinn svip á mannlífið með söng sínum, laga- og textagerð og ritstörfum. Hann var einn aðalhöfundur texta við þjóðhátíðarlög Oddgeirs Kristjánssonar ásamt þeim Árna úr Eyjum og Lofti Guðmundssyni. Það er einsdæmi í heiminum að í litlu þorpi hafi lent saman fjórir menn sem sköpuðu jafn falleg ljóð og lög og þeir gerðu. Þeir túlkuðu hjartalag Eyjanna sjálfra og fólksins,“ sagði Árni.

Ási í Bæ hét fullu nafni Ástgeir Kristinn Ólafsson. Hann fæddist 27. febrúar 1914 og lést 1. maí 1985. Ási kenndi sig við Litlabæ í Vestmannaeyjum. Hann sagði að varla hafi liðið svo dagur á bernskuheimili hans að ekki heyrðist söngur í húsinu. Síðar bjó Ási með fjölskyldu sinni í húsi við Hásteinsvöll sem hann nefndi Bæ.


„Ég sá gifsafsteypu af styttunni hjá Árna Johnsen og lagði til að við myndum klára þetta,“ sagði Örvar Guðni Arnarson, fjármálastjóri Ísfélags Vestmannaeyja. Hann hefur haldið utan um verkefnið fyrir hönd Ísfélagsins. „Ég kvæntist sumarið 2018 og brúðkaupsveislan var haldin í Smiðjunni hjá Árna Johnsen. Þar sá ég gifsafsteypuna af leirstyttu Áka Gränz og þurfti að bera hana í fanginu á milli herbergja. Þannig byrjaði þetta.“

Bronsafsteypan var gerð í Póllandi og Málmsteypan Hella steypti skjöld með upplýsingum um Ása í Bæ og styttuna. Starfsmenn fiskimjölsverksmiðju Ísfélagsins önnuðust svo uppsetningu og frágang. Frosti Gíslason hannaði hljóðkerfi sem er við styttuna. Með því að ýta á hnapp er hægt að hlusta á um 50 hljóðskrár með söng og frásögnum Ása í Bæ sem Ingi Gunnar Jóhannsson og Gísli Helgason útbjuggu.
Sæþór Vídó hjá Eyjafréttum gerði meðfylgjandi myndskeið um Ása í Bæ fyrir Ísfélag Vestmannaeyja.

Ætlunin er að efna til formlegrar afhjúpunar styttunnar þegar heimsfaraldur kórónuveirunnar verður að baki, mögulega næsta sumar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »