Afstaða fagnar náðun en harmar mismunun

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga á Íslandi.
Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

Afstaða, félag fanga á Íslandi, fagnar því að dómsmálaráðherra hafi brugðist við ástandi á biðlista með því að náða þá sem beðið hafa lengi eftir afplánun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum í dag. Í sömu tilkynningu gagnrýna samtökin þó mismunun gagnvart brotaflokkum þegar kemur að náðun.

Starfshópur á vegum dómsmálaráðherra sem skipaður var til að gera tillögur að aðgerðum til að stytta boðun­arlista til afplán­un­ar refs­inga lagði til skilorðsbundna náðun fyrir þá sem dæmdir hafa verið fyrir minni háttar brot og verið á boðunarlista í þrjú ár eða meira.

Á ríksstjórnarfundi á þriðjudaginn afgreiddi ríkisstjórnin níu náðunartillögur. Tilkynning Afstöðu var send út í kjölfarið.

„Ráðherra og umræddur starfshópur ætla þannig að fella eigin dóm um það hvaða afbrot eða afbrotamenn eiga möguleika á náðun og hverjir ekki. Matið verður þar með huglægt og líklega ómálefnalegt,“ segir í tilkynningunni. 

Bið er eins og afplánun

Afstaða bendir á í tilkynningunni að hafi einstaklingur beðið eftir afplánun í þrjú ár megi áætla að ekki hafi verið knýjandi þörf fyrir að fangelsa einstaklinginn strax. Þá sé þriggja ára bið fangelsisvist í sjálfu sér enda geti einstaklingur á biðlista ekki undirbúið framtíð sína eða skuldbundið sig félagslega.

„Brotaflokkur hefur ekkert með það að gera. Færa má rök fyrir því að minni hætta sé á því að veita einstaklingum með alvarlegra brot náðun en einstaklingum í örðum brotaflokkum,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert