Kallar ekki á ráðstafanir í Landsrétti

Davíð Þór Björgvinsson, dómari við Landsrétt og fyrrverandi dómari við …
Davíð Þór Björgvinsson, dómari við Landsrétt og fyrrverandi dómari við MDE. mbl.is/RAX

Niðurstaða yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu kallar ekki á neinar sérstakar ráðstafanir af hálfu Landsréttar sem ekki hefur þegar verið gripið til. Þetta segir Davíð Þór Björgvinsson, dómari við Landsrétt og fyrrverandi dómari við MDE, sem skrifar um niðurstöðuna á vef sínum.

Segir hann að í öllu falli sé líklega óhætt að ætla að ekki muni koma til endurupptöku dæmdra mála í stórum stíl. Komi til þess, í einhverjum mæli, muni það þá ekki hafa sérstök vandkvæði í för með sér fyrir Landsrétt sem ekki verði vel við ráðið.

Með dómi yfirdeildarinnar, sem kveðinn var upp í gær, sé dregið verulega úr þeirri óvissu sem fyrri dómur skapaði og sé það vel.

Skapi engin vandkvæði sem ekki sé búið að leysa úr

Davíð bendir meðal annars á að í dómi dómstólsins sé að finna tilmæli til íslenska ríkisins um að grípa til almennra ráðstafana til að leysa úr þeim vandkvæðum sem dómurinn skapar og koma í veg fyrir frekari brot.

„Um þetta er að segja að þetta hefur þegar verið gert með því að tekin var sú ákvörðun að þeir fjórir dómarar sem niðurstaðan varðar skyldu ekki sinna dómstörfum þegar á grundvelli dóms deildarinnar. Með þessari ákvörðun var augljóslega komið í veg fyrir frekari möguleg brot. Þrír þeirra hafa komið til starfa aftur á grundvelli nýrrar skipunar. Skipan þeirra hefur því verið komið á traustan grunn,“ skrifar Davíð.

Niðurstaða yfirdeildarinnar skapi því engin vandkvæði sem ekki sé þegar búið að leysa úr, að undanskildum einum þessara dómara.

„Vænta má þess að lausn finnist á vanda er hann varðar áður en langt um líður.“

Ekki sé þá þörf á að grípa til frekari almennra ráðstafana.

„Kemur þar tvennt til. Í fyrsta lagi var regluverkið um þessa skipan einnota að nokkru marki, einkum að því er varðar aðkomu þingsins. Í öðru lagi er niðurstaða Yfirdeildar ekki á því byggð að regluverkið sjálft um skipan dómara hafi verið eða sé gallað, heldur því að meinbugir hafi verið á framkvæmd þess í þessu tilfelli. Ætti að vera nægilegt að lesa dóminn gaumgæfilega til að forðast sambærilega uppákomu í framtíðinni,“ skrifar hann.

Spurning hvort MDE hafi seilst full langt

Dómur Mannréttindadómstólsins gefi einnig efni til frekari vangaveltna, meðal annars um þátt Hæstaréttar.

Bendir hann á að í dómi yfirdeildar dómstólsins sæti dómur Hæstaréttar frá 24. maí 2018 nokkurri gagnrýni.

„Í þessum dómi Hæstaréttar var komist að þeirri niðurstöðu að einn þeirra fjögurra dómara sem málið varðar væri lögmætur handhafi dómsvalda þrátt fyrir galla á málsmeðferð í aðdraganda skipunar sem sami réttur hafði áður talið vera á henni. Telur MDE að Hæstarétti hafi brugðist bogalistin við að útskýra þetta á fullnægjandi hátt með vísan til viðeigandi meginreglna sáttmálans,“ skrifar Davíð.

Verði dómur MDE tæpast skilinn á annan hátt en að þessi dómur Hæstaréttar eigi nokkurn þátt í að ákvæði 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu hafi verið talið brotið.

„Að þessu sögðu gefur þessi rökstuðningur í dómi MDE líka tilefni til margvíslegra hugleiðinga og vekur ýmsar spurningar, m.a. um hvort hann hafi seilst full langt inn á verksvið Hæstaréttar með þessu ati.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert