„Raunhæf bjartsýni“ vegna bóluefnis

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi dagsins.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi dagsins. Ljósmynd/Lögreglan

Ótímabært er að gera ráð fyrir því að bólusetning vegna kórónuveirufaraldursins hefjist fljótlega eftir áramót en Lyfjastofnun Evrópu mun meta bóluefni Pzifer í lok desember. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hvetur til raunhæfrar bjartsýni um það hvenær von sé á bóluefni til landsins.

Þetta kom fram í máli Þórólfs á upplýsingafundi almannavarna.

Verði niðurstaða Lyfjastofnunar Evrópu jákvæð ætti dreifing að geta hafist fljótlega upp úr áramótum. Ómögulegt sé hins vegar að segja hvenær það verði nákvæmlega.

Áhrifin sjáist mánuði eftir fyrsta skammt

Mun lengri tíma mun taka að fá niðurstöðu varðandi önnur bóluefni sem við eigum rétt á samkvæmt samningum. 

„Áhrif bólusetningar sjást um einum mánuði eftir að fyrsti skammtur hefur verið gefinn,“ sagði Þórólfur.

Hann ítrekaði að jákvæðar fréttir af bóluefni eigi ekki að verða til þess að við hættum að passa sóttvarnir og sagði einhverjar takmarkanir líklega í gildi þar til hjarðónæmi næst með bólusetningum.

Sóttvarnalæknir sagði að skammtar frá Pfizer og Moderna dugi ekki til að bólusetja alla þjóðina en gert er ráð fyrir því að Íslandi fái um 180.000 skammta frá fyrrnefnda fyrirtækinu. Við munum því þurfa að fá bóluefni frá AstraZeneca eða annað sem ekki er komið fram.

Þórólfur hvetur fólk til að fara í bólusetningu ef efnin reynast örugg í rannsóknum. Hann sagði ekki hægt að segja núna til um langtímaaukaverkanir bóluefnis margir glími við langtímaáhrif af völdum Covid-19. Alvarlegar afleiðingar veirunnar virðist algengar og þetta þurfi að vega og meta á móti áhættu við bóluefni sem er þróað hratt.

mbl.is