Þrjú sækja um í Landsrétti

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hallur Már

Þrjú sóttu um embætti dómara við Landsrétt sem auglýst var laust til umsóknar 20. nóvember. Meðal umsækjenda er Jón Finnbjörnsson, dómari við réttinn, en hann er einn þeirra fjögurra dómara sem Landsréttarmálið svokallaða snerist um.

Þegar dómstóllinn var stofnaður lagði hæfnisnefnd mat á hæfni umsækjenda. Þáverandi dómsmálaráðherra breytti uppröðuninni áður en tillagan var lögð fyrir Alþingi og samþykkt. Var Jón einn fjögurra dómara sem hafði færst inn á lista dómsmálaráðherra en hafði ekki verið meðal efstu á lista hæfnisnefndarinnar.

Þegar dómur Mannréttindadómstóls Evrópu lá fyrir í fyrra óskaði Jón eftir launuðu leyfi og fylgdu hinir dómararnir þrír, þau Ásmundur Helgason, Arnfríður Einarsdóttir og Ragnheiður Bragadóttir, á eftir honum og óskuðu eftir launuðu leyfi. Síðan þá hafa þau þrjú sótt um laust embætti við Landsrétt og verið skipuð á ný, en þetta er í fyrsta skiptið sem Jón sækir um embættið að nýju.

Umsækjendur í þetta skiptið voru þau:

  1. Jón Finnbjörnsson, dómari við Landsrétt
  2. Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari
  3. Símon Sigvaldason héraðsdómari

Skipað verður í embættið hið fyrsta eftir að dómnefnd um hæfni umsækjenda um dómaraembætti hefur lokið störfum.

mbl.is