„Það er alveg ljóst að það er tjón“

Svona er umhorfs á Seyðisfirði í dag.
Svona er umhorfs á Seyðisfirði í dag. mbl.is/Pétur Kristjánsson

„Það er í sjálfu sér ekki orðið tímabært að segja til um umfang á tjóni en það er alveg ljóst að það er tjón,“ segir Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratrygginga Íslands, um aurskriður sem féllu á Seyðisfirði í gær og ollu tjóni í byggð. 

Íbúar þurftu að rýma um 50 hús vegna þeirra og geta þeir ekki snúið til síns heima fyrr en í fyrsta lagi á morgun. 

„Ég get ekki sagt núna nákvæmlega hvað við erum að tala um mikið tjón. Við erum bara búin að fá eina tilkynningu til okkar en við vitum af fleiri tilkynningum sem eru á leiðinni,“ segir Hulda Ragnheiður. 

Teymi frá Náttúruhamfaratryggingum Íslands fer til Seyðisfjarðar á föstudag. 

„Við erum búin að vera í sambandi við sveitarstjóra og lögreglustjóra í morgun og erum bara að fylgjast með. Við förum yfirleitt ekki inn á svæðin á meðan það er enn hætta á þeim.“

Enn er hættustig í gildi á Seyðisfirði vegna skriðuhættu. Þá er óvissustig vegna skriðuhættu í gildi á öllu Austurlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert