Kraftaverk að enginn hafi látist

Mikið hefur reynt á íbúa Seyðisfjarðar.
Mikið hefur reynt á íbúa Seyðisfjarðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hildur Þórisdóttir, fyrrverandi forseti bæjarstjórnar Seyðisfjarðar og sveitarstjórnarmaður Múlaþings, segir rýmingu bæjarins eftir náttúruhamfarirnar hafa gengið vonum framar og að íbúar hafi verið mjög samvinnuþýðir í aðgerðunum.

„Ég óttast að þetta sé ekki búið enn þá og að fleiri hús muni fara. Það er ljóst að það er gríðarlegt vatnsmagn sem hefur safnast upp í fjöllunum,“ segir Hildur í samtali við mbl.is. „Það mun taka fólk langan tíma að treysta fjöllunum aftur. Það er búið að kippa öllu sem heitir öryggi undan íbúum Seyðisfjarðar.“

Hamfarirnar hafa sett sterkan svip á bæinn.
Hamfarirnar hafa sett sterkan svip á bæinn. Eggert Jóhannesson

Hún segir bæjarfólk hafa sýnt mikla samstöðu í kjölfar áfallanna sem dunið hafa yfir.

„Það er mikið hreinsunar- og uppbyggingarstarf framundan. En á sama tíma er alveg ótrúleg samheldni hjá fólki. Seyðisfjörður er samfélag sem samanstendur af íbúum sem elska að búa þar. Það er seigla í fólki fyrir, og ég vona að sú seigla komi fólki í gegnum þetta hræðilega áfall,“ segir Hildur.

Hildur segir það magnað að ekki hafi farið verr þegar litið er til atburðarásarinnar í heild.

„Það eru allir svo þakklátir fyrir að enginn hafi dáið. Í þessum hörmungum er það stóra kraftaverkið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert