Hver hefur sína sögu að segja

Aurskriðan eirði engu á leið sinni niður að sjávarsíðunni á …
Aurskriðan eirði engu á leið sinni niður að sjávarsíðunni á föstudag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hver Seyðfirðingur hefur sína sögu að segja, frá þeim hamförum sem átt hafa sér stað í firðinum undanfarna sólarhringa. 

Fjöldi þeirra sem hafa gefið sig á tal við blaðamann mbl.is á Egilsstöðum þekkir einhvern sem var í hættu staddur þegar stærsta skriðan æddi inn í byggðina síðdegis í gær. Ljóst er að tengslin innbyrðis eru náin og feginleikinn áþreifanlegur yfir því að ekki nokkur maður skyldi slasast. 

Margir lýsa miklum tilfinningalegum tengslum sínum við þau sögufrægu og aldargömlu hús sem hafa skemmst eða eyðilagst.

Almennt hafa Seyðfirðingar þó sýnt fádæma æðruleysi gagnvart þeim ósköpum sem dunið hafa á þeim. Margir virðast reyna að gera það besta úr þeim aðstæðum sem uppi eru.

Sögufræg og aldargömul hús skemmdust eða eyðilögðust.
Sögufræg og aldargömul hús skemmdust eða eyðilögðust. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Börnum gefin leikföng

Inni á Héraði eru nú fjölmargar fjölskyldur sem leggja þurftu á flótta úr firðinum. Dæmi eru um að verslunareigendur þar hafi gefið börnum ýmiss konar leikföng til þess að stytta þeim stundir á meðan þau eru fjarri heimilum sínum.

Sjálfboðaliðar Rauða krossins bentu fyrr í kvöld á að ýmsan varning hafi drifið að, víða af landinu, frá fólki sem vill leggja sitt af mörkum

Seyðfirðingum hefur enda orðið tíðrætt um djúpstætt þakklæti fyrir þann hlýhug sem þeir hafa fundið fyrir síðustu daga.

Frá fjöldahjálparstöð Rauða krossins á Egilsstöðum í kvöld.
Frá fjöldahjálparstöð Rauða krossins á Egilsstöðum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hleypt heim við fyrsta tækifæri

Almannavarnir nýttu dag­inn í dag til að skipu­leggja þau hreins­unar- og björg­un­ar­störf sem fram undan eru. Einnig voru settar upp áætlanir um hvað gera skuli þegar óhætt verður að fara inn á svæðið sem nú er lokað vegna skriðuhættu. 

Neyðarstig al­manna­varna er enn í gildi á Seyðis­firði. Áfram verður farið yfir gögn um vatnsþrýsting í firðinum á morgun.

„Og að sjálf­sögðu verður fólki sem býr hér hleypt heim við fyrsta tæki­færi. Hvort það verður á morg­un eða hinn dag­inn, ég get ekki svarað því,“ sagði Jens Hilm­ars­son, varðstjóri hjá lög­regl­unni og vett­vangs­stjóri, í samtali við mbl.is fyrr í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert