„Hvorki svartsýnn né bjartsýnn“

Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að ekki sé mikið hægt að lesa í bráðabirgðatölur um smit sem voru birtar í dag og í gær. Greint var frá tveimur smitum í dag og þremur í gær. Þórólfur segir að þarna sé líklegast verið að klára að setja inn tölur frá dögunum á undan, enda var öll sýnataka í gær lokuð og ekki eru að svo stöddu tölur yfir fjölda sýna sem voru tekin og því ekki hægt að segja til um hlutfall smita af heildarfjölda sýna.

Þórólfur segir að smitin sem hafi greinst undanfarna daga hafi flestöll tengsl við fyrri hópa sem hafi smitast. „Það eru mjög fáir undanfarið sem hafa ekki tengsl við neitt annað smit,“ segir hann. „Þetta lítur ágætlega út þannig séð. Skárra en ef við værum að finna þetta hingað og þangað,“ bætir hann við.

„Í heildina held ég að almenningur hafi staðið sig gríðarlega vel“

Hann segir útlit fyrir að jólahátíðin hafi gengið nokkuð vel upp sóttvarnalega, þó að tvö tilvik hafi komið fram í fjölmiðlum þar sem greint var frá mögulegum brotum á sóttvarnareglum. Annars vegar var um að ræða fjölmenna messu á aðfangadagskvöld í Landakotskirkju og hins vegar samkvæmi eða listasýningu í Ásmundarsal, en Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var þar á meðal gesta. „Í heildina held ég að almenningur hafi staðið sig gríðarlega vel,“ segir Þórólfur.

Spurður út í tölur síðustu daga og hvernig hann meti stöðuna eftir jól og inn í áramótin segir Þórólfur að það muni koma í ljós þegar niðurstöður sýnatöku í dag og næstu daga komi í ljós. „Ég er hvorki svartsýnn né bjartsýnn,“ segir hann.

„Fólk þarf að hafa áramótakúluna í lagi

Greint hefur verið frá nýju afbrigði veirunnar sem kom upp í Bretlandi og er talið smitast auðveldar en fyrra afbrigði. Þórólfur staðfestir að tvö smit með því afbrigði hafi komið upp við landamæraskimun. Annað var í byrjun mánaðarins og það síðara um 20. desember. Hann segir fleiri tilfelli ekki hafa komið fram, en bendir á að raðgreining Íslenskrar erfðagreiningar hafi ekki raðgreint yfir frídagana og því muni koma í ljós í vikunni hvort eitthvað af sýnum síðustu daga sé með nýja afbrigðið.

Fram undan eru svo áramótin og í gær sagði Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, að hann hefði áhyggjur af þeim tíma, sérstaklega þar sem hömlur falla oft þegar fólk fær sér í glas. Þórólfur tekur undir þetta. „Fólk þarf að hafa áramótakúluna í lagi. Það eru mikil veisluhöld og partístand í kringum áramótin, en eins og ég hef áður sagt þurfum við að halda þetta út yfir áramótin,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert