Tilkynna hvort Ásmundarsalur verði sektaður

Lögreglan mun að öllum líkindum senda út tilkynningu eftir áramót þar sem greint verður frá því hvort Ásmundarsalur verður sektaður fyrir meint brot á sóttvarnareglum á Þorláksmessu. Þetta staðfestir Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

„Við höfum ekki enn sektað staðinn,“ segir hann í samtali við mbl.is. Lögreglan sé með „slatta“ af sambærilegum málum eftir aðventuna. „Það verður farið í þetta eftir áramót,“ segir hann.

Spurður hvort von væri á tilkynningu um sóttvarnabrot í Ásmundarsal sagði hann: „Ég myndi halda það.“ 

Nú segir í dagbók lögreglu að samkvæmið hafi verið ólöglegt en samt á eftir að úrskurða um það hvort staðurinn verði sektaður. Standið þið við orðalagið úr dagbók lögreglu?

„Við erum að skoða þetta. Það mega ekki fleiri koma saman en 10 nema í matvörubúðum. Ef þetta er veitingahús, þá verður að hólfaskipta,“ segir Jóhann. Bætir hann við að hver þurfi að dæma fyrir sig, út frá reglugerð heilbrigðisráðherra.

Lögreglan mun tilkynna hvort um sóttvarnabrot hafi verið að ræða.
Lögreglan mun tilkynna hvort um sóttvarnabrot hafi verið að ræða. mbl.is/Eggert

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra var í Ásmundarsal á Þorláksmessu þar sem lögreglan taldi að sóttvarnareglur hefðu ekki verið virtar. 

Ekki hefur neitt enn verið ákveðið hvernig lögreglan á höfuðborgarsvæðinu muni aðhafast vegna mistaka sem hún gerði þegar hún birti persónugreinanlegar upplýsingar um veru ráðherra í samkvæminu. Að sögn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, Höllu Bergþóru Björnsdóttur, er málið enn til skoðunar.

Lögreglan sendi frá sér tilkynningu á öðrum degi jóla þar sem fram kemur að vinnureglur lögreglu séu þær að afmá eigi allar persónugreinanlegar upplýsingar úr dagbók lögreglu þegar samantektir úr henni eru sendar fjölmiðlum.

Lögreglunni láðist að gera það á aðfangadagsmorgun sem leiddi til þess að fjölmiðlum var það ljóst að ráðherra í ríkisstjórn hafði verið viðstaddur samkvæmi þar sem of margt fólk var samankomið.

Í ljós kom að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hafði verið á staðnum og baðst hann afsökunar á að hafa verið viðstaddur það sem hann kallar „sölusýningu“ þar sem saman voru komnir á bilinu 40-50 manns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert