Áfram í gildi hættustig á Seyðisfirði

Seyðisfjörður.
Seyðisfjörður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, lögreglustjórinn á Austurlandi ásamt vettvangsstjórn og ráðgjöfum fundaði nú í morgun vegna hreinsunarstarfs á Seyðisfirði.  Í dag ganga yfir hlýindi og því verður ekki unnið að fullum krafti innan þess svæðis sem stóra skriðan féll á 18. desember síðastliðinn. 

Hreinsunar- og viðgerðarstarf verður unnið utan þess svæðis og búið í haginn vegna vinnu komandi viku.  Þá er veðurútlit gott og má búast við að vinna fari af stað af fullum krafti á morgun að því er segir í stöðuskýrslu almannavarna. 

Þrátt fyrir að upptakasvæði skriðanna sé ekki innan rýmingarreits, þá er áréttað að þar getur verið hættulegt að fara um vegna lausra jarðlaga, skriðubrúna og sprungna sem hafa myndast. Fylgst verður með aðstæðum í dag, farið upp í Botnabrún og sprungur skoðaðar auk þess sem gerðar verða mælingar á hreyfingu jarðlaga. Engin hreyfing mældist í morgun en hún hefur verið lítil sem engin undanfarna viku.

Áfram er í gildi óbreytt rýming á því svæði sem kynnt var fyrir áramót.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert