Stór hluti bólusettur á fyrri hluta 2021

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að hennar væntingar séu þær að meirihluti landsmanna verði orðinn bólusettur gegn kórónuveirunni á fyrri hluta þessa árs. Það telur hún líklegt. Jafnframt segir hún að bólusetning hafi gengið betur á horfðist, hana hafi ekki órað fyrir því í fyrravor að hægt væri að hefja bólusetningar hér á landi jafnsnemma og raun bar vitni.

Þá segir Katrín að samflot við ESB og Noreg hafi verið rétt ákvörðun, þannig hafi fengist gott samstarf við aðrar þjóðir og Íslendingar geta notið styrks evrópsku lyfjastofnunarinnar.

„Það sem gerist er að við ákveðum að fara í samstarf með ESB og Noregi, ég tel að það hafi verið rétt ákvörðun. Þannig njótum við samstarfs við aðrar þjóðir og við njótum styrks evrópsku lyfjastofnunarinnar og við gerum samning við marga mismunandi framleiðendur,“ sagði Katrín í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Boltinn hjá Pfizer

Katrín segir að landslag bóluefnaþróunar og bóluefnakaupa sé mjög breytilegt, jafnvel dag frá degi. Eftir fund hennar við forsvarsmenn Pfizer varð henni ljóst að erfitt sé að fullyrða um það nákvæmlega hvenær hjarðónæmi náist í löndum heimsins. Katrín talaði einnig um hugmyndir um tilraun lyfjafyrirtækisins Pfizer um að ná hér á landi hjarðónæmi.

„Það hafa átt sér stað fundir, Kári [Stefánson] og Þórólfur [Guðnason] hafa gert grein fyrir hvaða aðstæður eru fyrir hendi hér á landi og hvernig þetta gæti gengið fyrir sig. En eins og fram hefur komið þá er boltinn hjá Pfizer.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert