Kemur í ljós hvort ráðherra verður yfirheyrður

Ásmundarsalur.
Ásmundarsalur. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Mál Ásmundarsalar þar sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var meðal gesta þegar lögregla stöðvaði þar samkomu á Þorláksmessu vegna gruns um sóttvarnarbrot, er enn til rannsóknar. Yfirheyrslur vegna málsins hefjast í næstu viku. Lögregla gefur ekki upp  hvort ráðherra verði yfirheyrður. 

„Við erum með fjölda svona mála til rannsóknar og þetta tekur allt sinn tíma. Bæði undirbúningur og skýrslutökur,“ segir Guðmundur Pétur Guðmundsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. 

Hann segir að lögreglan á Hverfisgötu sé með hátt í 30 mál þar sem grunur leikur á sóttvarnarbrotum til rannsóknar. Hann segir sönnunarbyrði almennt ekki erfiða í sambærilegum málum þar sem í flestum tilvikum er fólk gripið glóðvolgt. 

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. Kristinn Magnússon

Eigendur Ásmundarsalar sögðu í eftirmála málsins að salurinn hefði heimild til að vera með 50 manna samkomu þar sem um væri að ræða verslunarrými. Guðmundur Pétur segir það rétt að almennt hafi staðir leyfi fyrir ýmisa starfsemi. En það leyfi takmarkast með sóttvarnarlögum. „Það fer alltaf niður í 10 manns sama hvað leyfið segir. Svo mun koma fram í rannsókninni hvort þetta sé verslun eða ekki,“ segir Guðmundur Pétur. 

Guðmundur Pétur segir að ekki sé meiri áhersla á rannsókn málsins í Ásmundarsal en önnur. 

Verður ráðherra kallaður í yfirheyrslu ? 

„Það verður bara að koma í ljós,“ segir Guðmundur Pétur. 

Er fólk sem er viðstatt samkomur sem lögregla hefur afskipti af almennt kallað í yfirheyrslu? 

„Almennt hafa forsvarsmenn fyrirtækja og verslana verðir kallaðir í skýrslutöku og svo þeir sem sannarlega brjóta sóttvarnarlög,“ segir Guðmundur Pétur. 

Hann segir að hvert og eitt mál sé skoðað eftir þeim aðstæðum sem upp koma. „Ég get bara sagt að fyllstu sanngirni verði gætt í öllum málum sem eru til rannsóknar,“ segir Guðmundur Pétur.  

Gerirðu ráð fyrir að sektum verði beitt á alla í Ásmundarsal? 

„Það er ekki mitt að ákveða það. Rannsóknin mun leiða í ljóst hvort sektað verður eða ekki,“ segir Guðmundur Pétur.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert