Íslendingar eiga rétt á tvöfalt fleiri skömmtum

Frá fyrstu bólusetningunni hérlendis í lok desembermánaðar.
Frá fyrstu bólusetningunni hérlendis í lok desembermánaðar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ísland á rétt á tvöfalt fleiri skömmtum frá Pfizer en þegar hefur verið samið um, vegna samnings sem Evrópusambandið gekk frá í dag. Áður höfðu íslensk stjórnvöld samið um 250.000 skammta fyrir 125.000 Íslendinga.

Þetta kemur fram í skriflegu svari frá heilbrigðisráðuneytinu við fyrirspurn mbl.is. 

Nú er því útlit fyrir að skammtarnir verði 500.000 og dugi fyrir 250.000 þjóðarinnar eða nánast alla þá 284.000 Íslendinga sem stjórnvöld gera ráð fyrir að bólusetja.

Eins og greint var frá í morgun samdi Evrópusambandið við Pfizer um tvöföldun á samningi sambandsins og lyfjaframleiðandans. Sá samningur hefur því áhrif á Ísland. 

„Ísland hefur allan sama rétt til bóluefna sem Evrópusambandið og aðrar Evrópuþjóðir í samstarfinu. Það á jafnt við um magn og afhendingartíma en magninu er útdeilt hlutfallslega jafnt til þjóða miðað við höfðatölu. Samningurinn leiðir því til þess að Ísland fær rétt á tvöfalt fleiri skömmtum frá Pfizer en þegar hafði verið samið um en þegar er búið að semja um 250.000 skammta sem duga fyrir 125.000 einstaklinga.“

Fá bóluefni frá Moderna og Pfizer á komandi mánuðum

Í svarinu kemur fram að afhendingaráætlun bóluefna eftir marsmánuð liggur ekki fyrir. 

„Það liggur hins vegar fyrir að við munum áfram fá afhent bóluefni frá Pfizer og Moderna á komandi mánuðum þótt afhendingaráætlanir liggi ekki fyrir. Enn fremur er gert ráð fyrir að bóluefni AstraZeneca fái markaðsleyfi innan fárra vikna og að afhending þess geti þá hafist fljótlega, því fyrirtækið gerir ráð fyrir að afhending bóluefnisins hefjist á fyrsta ársfjórðungi.“

„Það mat er byggt á þeim fjölda bóluefnasamninga sem felast í Evrópusamstarfinu,“ segir í svarinu. Það er útskýrt betur í myndriti sem má finna hér neðst í fréttinni.

Við hvað dagsetningu er miðað í þeim efnum og við hversu stóran hóp þjóðarinnar?

„Ekki er miðað við tiltekna dagsetningu. Þeir sem fengið hafa COVID-19 eða mælst með [mótefni] verða ekki bólusettir og börn fædd 2006 eða síðar ekki heldur. Fjöldi þeirra sem gert er ráð fyrir að bólusetja eru 284.500 manns,“ segir í svarinu. 

mbl.is