Myndlist ögrar á dekkjaverkstæðum

Myndlistarsýningar á dekkjaverkstæðum virka mögulega jafn fjarstæðukenndar og að furðufuglum í bangsafötum takist að ráðast inn í bandaríska þingið, en eru þó jafn raunverulegar. Nú má finna tvær slíkar í borginni og á annarri má sjá fáklæddar konur á veggjunum sem mun vera sjaldgæft á dekkjaverkstæðum nú til dags.

Í desember var sett upp sýning á Gúmmívinnustofunni í Skipholti þar sem Eygló Harðardóttir sýnir hálfgerða skúlptúra sem eru hugsaðir og mótaðir inn í rýmið og á verkstæði Nesdekkja á Fiskislóð hanga nú myndir eftir myndlistarkonuna Kristínu Gunnlaugsdóttur.

Sýningahaldið er að frumkvæði Listasafns ASÍ og er því ætlað að færa listina nær félagsfólki sem vinnur á stöðunum en ekki síður öllum þeim fjölda fólks sem flæðir í gegnum verkstæðin.

Í myndskeiðinu er kíkt á sýninguna Vísbendingar á Gúmmívinnustofunni sem er gamalgróið verkstæði og raunar vel myndskreytt ef vel er gáð. Rætt er við Eygló og Sturlu Pétursson, eiganda verkstæðisins, sem segir verkin á veggjunum hafa vakið talsverða athygli.

Í gegnum tíðina hefur fólk ósjaldan barmað sér yfir myndskreytingum …
Í gegnum tíðina hefur fólk ósjaldan barmað sér yfir myndskreytingum á dekkjaverkstæðum. Ætli sú verði raunin á Fiskislóðinni? Myndin er úr póstkortaseríu sem ASÍ gerir í tengslum við sýningarnar. Ljósmynd/Aðsend

Hjá Nesdekkjum er kvenlíkaminn áberandi en Kristín segir það lengi hafa blundað í sér að hrista upp í myndskreytingum í karlavígjum á borð við dekkjaverkstæði. „Þarna glittir í aðra veröld innan um tvist, olíur og gúmmídekk í hrjúfu vinnumhverfi. Nektarmyndir á dagatölum hafa lengi verið algeng veggskreyting á karllægum vinnustöðum en sú hefð er sett í annað samhengi þegar verk sem kona gerir um sjálfa sig og kvenlíkamann birtast innan um grófgerð tól og tæki karlasamfélagsins,‘‘ segir Kristín um sýninguna sem nefnist Gimsteinar.

Sýningarhaldinu lýkur í lok febrúar en þangað til geta þeir, sem þurfa að skipta um dekk og eru áhugasamir um myndlist, slegið tvær flugur í einu höggi.

Eygló ásamt starfsmönnum Gúmmívinnustofunnar á póstkorti úr seríu ASÍ.
Eygló ásamt starfsmönnum Gúmmívinnustofunnar á póstkorti úr seríu ASÍ. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert