21 mánuður fyrir að henda konu fram af svölum

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Jón Rúnar Pétursson í 21 mánaðar fangelsi fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa í september 2019 veist með ofbeldi að konu á þrítugsaldri og hent henni fram af svölum íbúðar hans á annarri hæð í Hólahverfi í Breiðholti.

Afleiðingarnar urðu þær að konan hlaut heilahristing, blæðingar og bólgur undir húð í andliti ásamt skurðum yfir kjálka vinstra megin, brot á tveimur stöðum í neðri kjálka, brot í kinnholu efri kjálka, brotnar tennur og brot á mjaðmabeini, að því er segir í dóminum.

Jón Rúnar, sem er um fertugt, var dæmdur til að greiða konunni um 3,7 milljónir króna í bætur, en hún hafði farið fram á um 7,5 milljónir króna í bætur. Sundurliðaði hún kröfuna í miskabætur að fjárhæð 5 milljónir króna og skaðabætur vegna tannviðgerða upp á um 2,5 milljónir króna.

Maðurinn var einnig ákærður fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot með því að hafa í maí 2019 ekið þungu bifhjóli sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna því örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna um Vesturhóla í Reykjavík, við Hrafnhóla, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn. Sömuleiðis var hann ákærður fyrir að hafa í apríl 2020 á bifreiðastæði við Árbæjarkirkju haft í vörslum sínum 12,59 grömm af metamfetamíni sem lögreglumenn fundu við öryggisleit á honum. Maðurinn játaði brotin og var sakfelldur fyrir þau.

Maðurinn var dæmdur til að greiða allan sakarkostnað málsins, sem nam tæpum þremur milljónum króna. Til frádráttar dæmdri refsingu mannsins kemur óslitið gæsluvarðhald sem hann sat í frá 17. september til 13. október 2019.

mbl.is