Sjúkrahúsið á Ísafirði sett á hættustig

Sjúkrahúsið Ísafirði.
Sjúkrahúsið Ísafirði. mbl.is/Sigurður Bogi

Sjúkrahúsið á Ísafirði er komið á hættustig, en ástæða þess er að sjúklingurinn sem nú liggur á Landspítala og greint hefur verið frá að greindist smitaður hefur á síðustu dögum notið þjónustu á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.

Þrír starfsmenn á sjúkrahúsinu á Ísafirði eru í sóttkví og þrír til viðbótar í úrvinnslusóttkví. Þetta hefur talsverð áhrif á þjónustu rannsóknadeildar, röntgendeildar og skurð- og slysadeildar. Frá þessu er greint í tilkynningu á vefsíðu heilbrigðisstofnunarinnar.

Sýni hafa verið tekin úr starfsfólkinu og eru á leið suður til greiningar. Reynist sýnin neikvæð ætti að vera hægt að aflétta hættustiginu strax í kvöld segir jafnframt í tilkynningunni.

Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, er skrifaður fyrir tilkynningunni og segir þar að sjúklingum sé ekki hætta búin og öllum alvarlegum tilvikum verði hægt að sinna. Þá hafi sumir starfsmannanna þegar fengið fyrri bólusetningu og séu þar með komnir með vörn að hluta fyrir veirunni.  

mbl.is