Rifta færslum upp á 39 milljónir

Þegar mest var voru reknar fimm verslanir undir merkjum Víðis.
Þegar mest var voru reknar fimm verslanir undir merkjum Víðis. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Landsréttur hefur rift færslum í bókhaldi þrotabús matvöruverslunarinnar Víðis upp á 39,4 milljónir sem bókaðar voru sem greiðsla upp í skuld verslunarinnar við Helgu Gísladóttur, annars stofnenda og eiganda matvöruverslunarinnar . Þarf Helga að skila þeim þannig að færslurnar gangi til baka. Þetta kemur fram í dómi Landsréttar sem kveðinn var upp í dag.

Samtals er um að ræða 29 færslur sem bókaðar voru frá gamlársdag 2017 fram til loka maí árið 2018, en verslunin var úrskurðuð gjaldþrota 13. júní sama ár. Var Helga þá eigandi, framkvæmdastjóri, prókúruhafi og stjórnarmaður Víðis. Áður hafði héraðsdómur rift færslum upp á 51 milljón, en Landsréttur fækkaði þeim færslum sem rift var.

Þrotabúið hafði upphaflega farið fram á riftun á 35 færslum upp á 118,4 milljónir, en Helga hafði samið um að skila stærstu kröfunni upp á 66,7 milljónir. Hafði héraðsdómur fallist á að rifta öllum þeim greiðslum sem eftir stóðu. Helga áfrýjaði þeim dómi og fór fram á að vera sýknuð í málinu. Enginn mætti fyrir hönd þrotabúsins fyrir Landsrétt, en sem fyrr segir var niðurstaðan sú að Landsréttur samþykkti meirihluta krafna um riftingu á færslum.

Fram kemur í dóminum að samtals hafi kröfum að upphæð 941 milljón verið lýst í búið.

mbl.is