13.800 skammtar frá AstraZeneca í febrúar

Bóluefni AstraZeneca.
Bóluefni AstraZeneca. AFP

Ísland fær 13.800 skammta af bóluefni lyfjafyrirtækisins AstraZeneca í febrúar, að því gefnu að Lyfjastofnun Evrópu afgreiði umsókn fyrirtækisins um skilyrt markaðsleyfi á föstudag. 

Þetta kemur fram í skriflegu svari heilbrigðisráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu RÚV. 

Greint var frá því um helgina að AstraZeneca gæti ekki staðið við fyrstu afhendingaráætlun bóluefnisins og verður færri skömmtum því dreift á fyrsta ársfjórðungi en fyrirhugað var. 

Fjöldi skammta frá AstraZeneca gæti dreg­ist sam­an um 60% en fyr­ir­tækið stefndi að því að dreifa um 80 millj­ón skömmt­um til Evr­ópu­sam­bands­ríkja fyr­ir lok mars. Nú er þó út­lit fyr­ir að þeir verði ekki fleiri en 31 millj­ón.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur þrýst á stjórnendur AstraZeneca að standa við fyrirheit sín. Hefur sambandið hótað því að banna útflutning á bóluefni til ríkja utan sambandsins. 

RÚV greinir frá því að til stóð að Norðmenn fengu 1,1 milljón skammta frá AstraZeneca í næsta mánuði. Þar sem Ísland fái 6,8% af skömmtum Noregs má ætla að samkvæmt upphaflegri áætlun ættu að koma tæplega 75 þúsund skammtar hingað til lands í febrúar. Hefði það nægt til að bólusetja um 37 þúsund manns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert