„Litlu munaði að ég yrði sjálfur bráð eldsins“

Allt tiltækt lið slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins var kallað út vegna eldsvoðans …
Allt tiltækt lið slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins var kallað út vegna eldsvoðans í Kaldaseli í Breiðholtinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Maðurinn sem átti húsið í Kaldaseli sem gjöreyðilagðist í bruna í vikunni segir litlu hafa munað að hann yrði sjálfur eldinum að bráð. Atburðurinn hafði mikil og djúpstæð áhrif á hann.

Þetta kemur fram í facebookfærslu Haraldar Rafns Pálssonar, eiganda hússins og lögfræðings, þar sem hann lýsir yfir þakklæti til sinna nánustu og biðlar til allra að vera með eldvarnamál í lagi.

Haraldur hafði nýlega fest kaup á húsinu sem brann ásamt öllu innbúi. Hann slapp naumlega með væga reykeitrun og skrámur en „litlu munaði að ég yrði sjálfur bráð eldsins“, segir hann í færslunni. Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu rannsakar eldsupptökin.

„Fyrir einhverja óskiljanlega ástæðu vaknaði ég upp af værum svefni og náði naumlega að átta mig á aðstæðum og koma mér út, án teljandi meiðsla, fyrir utan væga reykeitrun og nokkrar skrámur. Aðeins nokkrar sekúndur réðu þar úrslitum og á tímabili hélt ég að þetta væru mín örlög og endir,“ skrifar Haraldur.

Hann segist skrifa færsluna fyrst og fremst til að biðja alla um að kanna stöðu mála á reykskynjurum og eldvörnum heima hjá sér og svo til að þakka öllum sem hafa sent honum kveðjur og sýnt honum stuðning.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert