Búið að greina flest sýni

Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Búið er að greina nánast öll leghálssýni sem tekin hafa verið hjá íslenskum konum í forvarnarskini í desember. Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir í tilkynningu í gærkvöldi að það muni taka tvær vikur til viðbótar að vinna upp alla seinkun sem varð þegar sýnatakan færðist yfir til heilsugæslunnar og samið var við rannsóknarstofu í Danmörku um greiningu sýnanna.

„Þegar hafa verið póstlögð um 2.300 svarbréf þar sem konunum er gerð grein fyrir niðurstöðu greiningarinnar, og örfá til viðbótar fara í póst næstu daga. Við munum svo á næstu dögum setja okkur í samband við þær konur sem þurfa á frekari skoðun að halda. Öll þessi svör verða sett á www.island.is fyrir helgi.

Okkur þykir mjög leitt að þessi seinkun hafi valdið óþarfa áhyggjum og erum þess fullviss að þjónustan muni á næstunni verða bæði betri og hraðvirkari en fyrr,“ segir Óskar jafnframt í fréttatilkynningu.  

mbl.is