„Þetta er allt bullandi virkt“

Fagradalsfjall við Grindavík er ein virku eldstöðvanna á Reykjanesskaga.
Fagradalsfjall við Grindavík er ein virku eldstöðvanna á Reykjanesskaga. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er náttúrulega virkt svæði,“ segir Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur en Reykjanesskagi, þar sem nokkrir stórir jarðskjálftar hafa riðið yfir í morgun, er eitt eldvirkasta svæði landsins.

Ármann segir spennustigið svolítið flókið á skaganum og til að eitthvað komi upp úr jörðinni þurfi einhver gliðnun að sjást. Skjálftarnir hingað til hafi flestir verið sniðgengisskjálftar; þar sem flekarnir nuddast utan í hvor annan.

Ármann hefur áður sagt að það muni gjósa aftur á Reykjanesskaga og ítrekar það. 

„Það er alveg klárt. Þetta er allt bullandi virkt. Um leið og þú klárar að losa þetta spennusvið og byrjar að búa til spennusvið sem opnar skorpuna þá er leiðin greið fyrir kviku,“ segir Ármann og bætir við að þótt langt sé liðið frá gosi á skaganum sé hann ekki hættur.

Dr. Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur.
Dr. Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur. mbl.is/Golli

Hins vegar er erfitt að segja til um hvenær muni gjósa. Ármann segir stutt síðan byrjað var að mæla almennilega virknina á skaganum, um 40 ár, og til að skilja allt sem mælarnir sjá þurfi að ganga í gegnum goshrinu.

„Fram að því er eingöngu hægt að bera saman við önnur svæði, sem er ekki það sama,“ segir Ármann.

„Það er ekkert ólíklegt að það komi eitthvað upp í náinni framtíð. Við reynum bara að fylgjast með eins og við getum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert