„Við setjum allt upp á borðið“

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir að almenningur fái að vita af …
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir að almenningur fái að vita af því um leið ef einhverjar líkur verða á eldgosi. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Ekkert bendir til þess að eldgos sé í vændum á Reykjanesskaga en almenningur fær að vita af því um leið ef staðan breytist, að sögn Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Fulltrúar embættisins funduðu með fulltrúum Veðurstofu Íslands í morgun. 

„Við munum upplýsa um leið og einhverjar vísbendingar eru um landris eða eitthvað sem getur bent til kvikuinnskota, eins og við gerum alltaf. Við setjum allt upp á borðið þannig að jafnvel um leið og vísindamenn fara eitthvað að velta þessu fyrir sér þá mun það koma fram,“ segir Víðir, spurður hvort íbúar á svæðinu þurfi að hafa áhyggjur af gosi. 

Reykjanesið afskaplega vel vaktað

„Það er búið að vinna viðbragðsáætlun vegna eldgosa á Reykjanesi og svo eigum við auðvitað almenna viðbragðsáætlun um slíkt. Við funduðum með Veðurstofunni í morgun og það kom fram í máli þeirra að það eru engin ummerki um neitt sem bendir til kvikuinnskota eins og staðan er,“ segir Víðir og heldur áfram:

„Það er ekkert landris. Þau mæla landris með ýmsum tækjum og Reykjanesið er afskaplega vel vaktað. Það er ekkert eins og staðan er núna sem segir okkur að það séu einhver kvikuinnskot komin af stað. Þessi jarðskjálftahrina er metin algjörlega sem flekahreyfingar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert