Ómögulegt að segja hvað veldur álaginu

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. Ljósmynd/mbl.is

„Það er gríðarlega mikil aðsókn, langt út fyrir það sem við erum vön að sjá,“ segir Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans, um aukið álag á bráðamóttöku spítalans, í samtali við mbl.is. 

Land­spít­al­inn hefur beðið fólk sem orðið hef­ur fyr­ir minni slys­um eða glím­ir við minni hátt­ar veik­indi að leita frek­ar á heilsu­gæslu eða Lækna­vakt­ina en bráðamót­tök­una í Foss­vogi vegna mik­ils álags og til­heyr­andi for­gangs­röðunar. 

Anna Sigrún segir enga staka skýringu á álaginu. „Það er ómögulegt að segja. Það sem við erum að sjá er mjög fjölbreyttur hópur sjúklinga sem er að koma. Það er allt mögulegt, en þó ekki þessar hefðbundnu sýkingar sem við erum að sjá á þessum tíma árs það er að segja inflúensa eða þess háttar,“ segir Anna Sigrún.

Anna Sigrún segir bæði mikið aðflæði sjúkrabíla og í gegnum biðstofu bráðamóttökunnar. 

Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans.
Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans. mbl.is/Sigurður Bogi

Ekki óþarfa komur

„Við reynum að beina fólki með minni háttar vandamál annað og við gerum það. En það sem við erum að sjá engu að síður að af þessum hópi sem kemur er innlagnahlutfallið, það er að segja þeir sem þurfa að komast inn á spítalann, það er hátt – þetta er mjög veikt fólk. Þetta eru ekki óþarfa komur,“ segir Anna Sigrún.

Anna segir vandamálin fyrst og síðast medisínsk – eða læknisfræðileg. Ekki er um auka tíðni slysa að ræða. „Ég held að þetta hljóti að vera rannsóknarefni, hvers vegna hefur komum fjölgað svona – og þá sérstaklega innlagnarhlutfallinu,“ segir Anna.

Anna segir hefðbundinn fjölda koma á sólarhring á bráðamóttökuna í Fossvogi vera í kringum 85. Undanfarið hafi komur verið um 110 – 140 og aukningin hafi verið um það bil frá áramótum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert