Eldgos yrði líklegast við Fagradalsfjall

Líklegast þykir samkvæmt spánni að gos komi upp við Fagradalsfjall. …
Líklegast þykir samkvæmt spánni að gos komi upp við Fagradalsfjall. Örnefnum hefur verið bætt á kort stofnunarinnar. Kort/Jarðvísindastofnun HÍ

Ný spá fyrir hraunflæði og eldsuppkomu, fari svo að kvika komi upp á yfirborðið, hefur verið reiknuð.

Er jarðfræðileg virkni liðinnar nætur tekin inn í útreikningana, að því er fram kemur í tilkynningu frá eldfjallafræði- og náttúruvárhópi Jarðvísindastofnunar.

Að þessu sinni er talið að eldur geti komið upp á fimm svæðum, þó sérstaklega sé tekið fram að nær engar líkur séu á því að gos yrði á öllum svæðunum.

Ljóst er að skjálftavirknin hefur greinilega færst í suðvestur, fjær fjallinu Keili og um leið nær Fagradalsfjalli. Líklegast þykir samkvæmt spánni að gos komi upp við Fagradalsfjall, sem sjá má af stóra rauða blettinum hægra megin á kortinu.

Eldur gæti komið upp við Bláa lónið

Þegar talað er um fimm möguleg svæði segir að meðal annars sé um að ræða svæðið við Fagradalsfjall, við Sýrfell, og svo á svæði norðvestur af fjallinu Þorbirni, sem eins og sjá má af kortinu þekur Bláa lónið og nágrenni þess.

Gysi þar gæti hraun runnið í suður og í átt til Grindavíkur.

Kortið sýnir mögulegar hraunrennslisleiðir, þ.e. ef litur er dökkur er líklegra að hraun fari þar um og að sama skapi ef litur er ljós eru mun minni líkur á að hraun fari þar um.

Tekið er fram að þar sem nánast engar líkur séu á gosi á öllum svæðum muni einhverjir vegir ávallt haldast opnir.

„Þá er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að hraun tekur tíma að renna og því ávallt viðbragðstími. Kortið er til að glöggva okkur á hvar hraun gætu runnið um, svo við getum betur búið okkur undir viðbragð.“

mbl.is