Hundinum ekki um sel í Baldri

Guðný Sigurðardóttir og hundurinn Moli um borð í Baldri. Þar …
Guðný Sigurðardóttir og hundurinn Moli um borð í Baldri. Þar voru þau í 25 klukkustundir og það var helst Moli sem ókyrrtist í ölduganginum. Þetta var þó slæm lífsreynsla, segir Guðný. Ljósmynd/Aðsend

Farþegar ferjunnar Baldurs eru komnir á land í Stykkishólmi og halda nú hver sína leið. Skemmdir urðu á bifreiðum á bíladekki ferjunnar og óvíst er um matvæli sem verið var að flytja.

Einn farþeganna er Guðný Sigurðardóttir, starfsmaður Arnarlax, sem hefur verið búsett á Bíldudal síðan 1982. Hún er á leið suður í bíl þessa stundina.

Guðný segist í samtali við mbl.is þekkja hvernig það er að búa við erfiðar samgöngur en segir bagalegt að þær séu í raun og veru ekki tryggari en þetta. Sem stendur eru allar leiðir á sunnanverða Vestfirði lokaðar og Guðný og eiginmaður hennar ákváðu að taka far með ferjunni suður vegna þess að landleiðin var ófær.

Ferjan Baldur kemur í höfn eftir 25 klukkustunda ferð.
Ferjan Baldur kemur í höfn eftir 25 klukkustunda ferð. Ljósmynd/Viktor Bjarnason

Fór mest um hundinn

Það sem átti að verða tveggja og hálfs tíma sigling varð rúmur sólarhringur um borð í ferjunni, sem varð vélarvana á miðri leið. Guðný ber áhöfninni í Baldri vel söguna en segir hræðilega lífsreynslu að festast svona úti á sjó.

„Megininntakið er að þetta er óboðlegt. Það er mjög sérstakt ef maður hugsar út í það að skipi sem aðeins er með eina vél sé heimilt að vera í farþegaflutningum á svona hættulegu svæði. Þarna eru sker og eyjur og við vorum í raun bara heppin að vera ekki á hættulegri stað,“ segir Guðný.

Hún segir að áhöfnin hafi öll verið hin alúðlegasta og að hún hafi gengið í verkin fumlaust af fagkunnáttu. Því skapaðist ekkert hræðsluástand, að sögn Guðnýjar, nema ef vera skyldi hjá Mola, hundi sem þau hjón eru með í pössun. „Það fór mest um hann, sem þurfti að vera í bílnum mestallan tímann,“ segir Guðný.

Moli er ellefu ára labrador.
Moli er ellefu ára labrador. Ljósmynd/Aðsend

Bíll og vagn runnu til

Að sögn Guðnýjar gátu farþegar látið fara vel um sig og sofið um nóttina. Einkennilega lítið hafi borið á sjóveiki. 

Morgunblaðið/Gunnlaugur Árnason

Samkvæmt upplýsingum frá öðrum farþegum urðu þó nokkuð miklar skemmdir á bifreið og vagni sem færðust til inni á bíladekki ferjunnar. Þá er óljóst hvert ástandið er á laxinum í fjórum flutningavögnum sem þurftu að bíða nóttina af sér í ferjunni. Sá lax var á leið á erlendan markað.

Bílar á dekki færðust til.
Bílar á dekki færðust til. Morgunblaðið/Gunnlaugur Árnason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert