„Hvaða andskotans kjaftæði er það?“

Því miður eru eflaust of margir sem kannast við að vera ekki teknir alvarlega í lífi og starfi. Hildur Gunnlaugsdóttir, arkitekt og umhverfisfræðingur, segist oftar en einu sinni hafa upplifað það. Sérstaklega sé minnisstætt þegar hún hélt fyrirlestur í bleikum fötum á námsárunum í Kaupmannahöfn.

Fyrirlesturinn var fyrir framan panel af kennurum og arkitektum sem voru að standa sig vel í atvinnulífinu. Hildur mætti í bleikum fötum frá toppi til táar, var í góðum gír og afskaplega ánægð með sig. Hins vegar hafi bekkjarfélagar hennar litið skringilega á hana. „Þau horfðu bara á mig og spurðu: „Hvernig þorirðu þessu? Þér verður ekki tekið alvarlega svona.“ Og ég hugsaði bara með mér, afsakið mig, en hvaða andskotans kjaftæði er það? Af hverju ætti það einhverju máli að skipta?“

Þetta hafði blessunarlega ekki of mikil áhrif á hana þar sem hún heldur sínu striki og fylgir sjálfri sér í klæðaburði og lífinu almennt. „Mér finnst þetta svo áhugavert, að fólk skuli í alvöru vera að pæla í þessu og ég hef kannski leikið mér svolítið að því að segja bara „Fokkitt“. Ég ætla bara að vera svona.“

Hildur vonar þó að þetta sé að breytast og segir að með aldrinum sé enn auðveldara að bregðast við þessu og um leið fá breiðara bak. „Mér finnst dásamlegt að eldast. Það á samt ekki að þurfa að vera þannig að við þurfum að eldast til þess að vera tekin alvarlega. Svo kemst maður náttúrlega líka í þá stöðu að fólk verður að taka manni alvarlega.”

Hildur er fyrsti gestur Dóru Júlíu í Dagmálum og sjá má brot úr viðtalinu hér að ofan en þátturinn í heild sinni er aðgengilegur áskrifendum Morgunblaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert