„Annað stórt innanlandssumar“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar-, ferðamála- og nýsköpunarráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar-, ferðamála- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það er líklegt að ferðaþjónustan fái einhvern byr í seglin síðsumars og inn í haustið þegar bólusetningar bæði hér á landi og í nágrannalöndum okkar verða orðnar almennari. Sumarið í ár verður þó að öllum líkindum svipað og síðasta sumar þar sem landsmenn munu ferðast mikið innanlands. Þetta segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar-, ferðamála- og nýsköpunarráðherra.

Þórdís segir að enn hangi gangur í ferðaþjónustunni við það hvernig bólusetningum muni vinda fram, bæði hér á landi og í löndunum í kringum okkur. Bendir hún á að aðstæður víða séu enn slæmar og að viðsnúningur í ferðaþjónustu hér muni líklega haldast í hendur við bætta stöðu erlendis.

Í dag hefur rúmlega 34 þúsund einstaklingum verið gefinn alla vega fyrsti skammtur af bóluefni. Þórdís segir áhættumat hér á landi geta breyst fljótlega. „Þegar tekist hefur að bólusetja 50 þúsund manns þá breytist áhættumat okkar töluvert og það eru forsendur, ef allt gengur eftir hér, að vera með eitthvað opnari landamæri. Við verðum þá búin að koma viðkvæmum hópum í skjól,“ segir Þórdís, en bætir við að þó verði að fylgjast vel með stöðunni í öðrum löndum í kringum okkur.

„En ég held að það sé alveg ljóst að við erum að fara inn í annað stórt innanlandssumar, en vonandi verða aðstæður þannig að við verðum með einhver frekari umsvif,“ segir hún um þá sviðsmynd sem hún sjái fyrir sér í ferðaþjónustunni hér á landi í sumar.

mbl.is

Bloggað um fréttina