122 frá hááhættusvæðum á sóttkvíarhóteli

Fosshótel Reykjavík er farsóttarhús.
Fosshótel Reykjavík er farsóttarhús. mbl.is/Árni Sæberg

Alls gistu 126 manns á sóttkvíarhótelinu í Reykjavík við Þórunnartún í nótt, sem komu með fimm flugvélum í gær. Þar af komu 122 frá dökkrauðum hááhættusvæðum, eða Hollandi, Svíþjóð og Póllandi.

„Við bjuggumst við miklu fleirum. Miðað við þær frumtölur sem við höfðum fengið hefðu átt að vera hér í kringum 600 manns,“ segir Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður sóttvarnahúsa, í samtali við mbl.is. Hann telur að margir hafi hætt við komu hingað til lands út af nýju reglunum varðandi komufarþega og sóttkvíarhótel. „Allt hefur gengið ljómandi vel hingað til,“ tekur hann fram.

Gylfi Þór Þorsteinsson sér um sóttvarnahúsin.
Gylfi Þór Þorsteinsson sér um sóttvarnahúsin. mbl.is/Sigurður Bogi

31 sýktur við Rauðarárstíg

Gylfi Þór bætir við að í farsóttarhúsinu við Rauðarárstíg séu 45 manns. Þar af er 31 sýktur af kórónuveirunni. „Það er í hærri kantinum miðað við undanfarnar vikur,“ segir hann.

Þrjár flugvélar eru væntanlegar til landsins í dag en aðeins ein kemur frá dökkrauðu svæði, eða Póllandi. Sú vél, frá Wizz Air, lendir klukkan 19.20 og líklegt er að megnið af þeim farþegum gisti á sóttkvíarhótelinu í nótt, að sögn Gylfa. Hinar flugvélarnar koma frá Kaupmannahöfn og Frankfurt um hálffjögurleytið í dag. 

Hann nefnir jafnframt að enginn hafi komið á hótelið úr Ameríkufluginu í morgun en það svæði er ekki dökkrautt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert