Slapp til í Grindavík í nótt

Kort/Veðurstofa Íslands

Einhverrar gasmengunar gæti orðið vart í Ölfusi í dag þar sem spáð er vestlægri eða breytilegri átt. Von er á nýrri gasmengunarspá á áttunda tímanum. 

Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að á tíunda tímanum í gærkvöldi hafi mælst mjög ákveðin merki um gasmengun í Vogum á Vatnsleysuströnd og um klukkan 22 hafi hún mælst um 1.500 míkrógrömm á rúmmetra. Þegar mengun er svo mikil finni viðkvæmir einstaklingar fyrir hósta og viðkvæmni í augum. Þetta hafi hins vegar breyst hratt eftir það og vindáttin farið í norðaustan- og austanátt á gosstöðvunum.

Því var gefin út viðvörun seint í gærkvöldi og varað við því að gasmengun gæti blásið yfir Grindavík. Íbúar þar voru því hvattir til að loka gluggum hjá sér fyrir nóttina og hækka í ofnum. Einar segir að mælingar sýni að þetta hafi sloppið til og gasmengun ekki mælst þar í nótt. 

Hægt er að fylgjast með loftgæðum í Grindavík hér.

mbl.is