Eru á eigin ábyrgð

mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan á Suðurnesjum hefur ákveðið að loka aðgengi almennings að gossvæðinu klukkan 21 í kvöld og að rýming svæðisins hefst klukkan 23 og verði lokið fyrir miðnætti. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.   

Spáð er fremur hægri norðlægri átt en síðan norðvestanátt um 8-13 m/s. „Skammvinn vestanátt með snjókomu milli kl. 15 og 18. Hæg breytileg átt í kvöld og líkur á stöku éljum, en þurrt í nótt. Frost 0 til 3 stig.

Gasmengunin ætti fyrst að fara til suðurs og síðar suðvesturs og ekki líkur á mengun í byggð. Í kvöld er aftur á móti hæg breytileg átt og líkur á að gas safnist upp við gosstöðvarnar.“

Á morgun verður gossvæðið vaktað af lögreglu og björgunarsveitum frá klukkan 12 til miðnættis. Lokað verður inn á svæðið kl. 21. Rýming hefst kl. 23 og verður lokið fyrir miðnætti. Sama gildir um sunnudag.

Á morgun er spáð hægri suðlægri eða suðvestlægri átt og þurru. „Hægt vaxandi vindur þegar líður á daginn, S og síðar SV 8-13 m/s síðdegis með éljum. Hiti kringum frostmark. Gasmengun berst einkum til norðurs og norðausturs og gæti borist að Vogum og til höfuðborgarsvæðisins.“

Svæðið er hættulegt

„Þeir sem ætla sér inn á svæðið fyrir kl. 12 á morgun og á sunnudag gera það á eigin ábyrgð. Svæðið er hættulegt og þá ekki síst vegna lélegra loftgæða. Lögregla getur án fyrirvara lokað fyrir alla umferð inn að gosstöðvunum. Gert er ráð fyrir því að bannsvæði við eldstöðvarnar verði markað á korti sem verður birt síðar í dag.

Svæðið er ekki fyrir lítil börn, þau eru viðkvæm og nær jörðinni en þeir sem eldri eru og því útsett fyrir skaðlegum lofttegundum. Þeir sem klæða sig ekki vel hafa ekkert inn á svæðið að gera,“ segir enn fremur í tilkynningu frá lögreglunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert