Engar skerðingar á afhendingu

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Engar skerðingar eru á afhendingu bóluefnis AstraZeneca til Íslands að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. Vísar hann þar til frétta þar að lútandi í gær. Áætlanir um afhendingu á bóluefni AstraZeneca til Íslands standist. Þetta kemur fram í samtali Þórólfs við mbl.is. 

Líkt og fram kemur á vef heilbrigðisráðuneytisins er von á 9.360 skömmtum af bóluefni Pfizer í viku 15, frá Moderna koma 2.640 skammtar, af AstraZeneca bóluefninu er von á 1.980 skömmtum og fyrstu skammtarnir af bóluefni Janssen eru væntanlegir í vikunni – alls 2.400 skammtar. 

Spurður út í hvað verði með seinni bólusetningu þeirra sem eru yngri en 55 ára, sem þegar hafa fengið fyrri bólusetningu með AstraZeneca hér á landi, minnir Þórólfur á að seinni bólusetning eigi að fara fram þremur mánuðum eftir fyrstu.

AFP

„Við erum í samvinnu við Norðurlöndin og önnur ríki Evrópu um hvað verði gert varðandi skammt tvö,“ segir Þórólfur. Þjóðverjar og Frakkar hafa þegar ákveðið að bjóða yngra fólki upp á annað bóluefni en sú ákvörðun byggir ekki á neinum rannsóknarniðurstöðum að hans sögn. „Við erum aðeins að hinkra og bíðum eftir því að fá frekari gögn en það er ekki komið að þessari bólusetningu,“ segir hann. 

Þórólfur á von á því að skila heilbrigðisráðherra minnisblaði á næstu dögum en núgildandi sóttvarnareglur gilda til fimmtudags, 15. apríl. Vinnu við minnisblaðið er ekki lokið. 

Tveir greindust utan sóttkvíar í gær en það kemur Þórólfi ekki á óvart að enn sé að greinast fólk utan sóttkvíar. „Þetta er í samræmi við það sem við höfum sagt. Eins er fólk að koma í skimun sem hefur verið með einkenni í einhvern tíma en hefur þrátt fyrir það ekki mætt í sýnatöku fyrr. Það er mikið áhyggjuefni ef fólk með einkenni mætir ekki í sýnatöku,“ segir Þórólfur. Að hans sögn eru þetta oft einstaklingar af erlendu bergi brotnir sem stundum hefur verið erfitt að ná til.

Unnið er að smitrakningu vegna smitanna í gær en ekki er ljóst hversu margir þurfa að fara í sóttkví vegna þessara smita.

Bólusetningar við Covid-19 hófust undir lok árs 2020.
Bólusetningar við Covid-19 hófust undir lok árs 2020. mbl.is/Eggert Jóhannesson


Fyrir helgi var farið að bólusetja heilbrigðisstarfsfólk sem ekki var þegar búið að fá bólusetningu. Meðal þeirra sem fengu boð eru læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, þroskaþjálfar og og fleiri sem ekki eru í klínisku starfi heldur hafa snúið til annarra starfa eða eru hættir störfum.

„Einstaklingar í þessari stöðu voru hvattir til að þiggja ekki þetta fyrsta boð í bólusetningu gegn Covid-19 heldur hugleiða að hver skammtur sem er notaður fyrir hóp 5 tefur lítillega bólusetningar einstaklinga með áhættuþætti fyrir alvarlegri Covid-19-sýkingu undir sextugu. Það kemur að því að allir sem vilja bólusetningu geti fengið hana, en við höfum ekki bóluefni fyrir alla fyrr en síðar á árinu,“ segir á vef embættis landlæknis.

Meðal þeirra sem afþökkuðu boðið var Þórólfur sjálfur enda segist hann ekki vera í beinum tengslum við sjúklinga. „Við viljum reyna að bólusetja fólk fyrst sem við teljum geta farið illa út úr Covid-sýkingunni ef það smitast. Eins fólk sem er í áhættu að smitast. Er útsett þar sem það vinnur með sjúklingahópa og svo framvegis,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is.

„Heilbrigðisstarfsmenn sem ekki eru að sjá sjúklinga eru í sjálfu sér ekki í áhættuhóp og þar undir fell ég,“ segir Þórólfur og segir að þess vegna hefði verið biðlað til þessara einstaklinga um að afþakka bólusetningu að svo komnu máli og bíða þangað til kemur að þeim síðar.

Á föstudaginn fóru ýmsir eftir ráðleggingum embættis landlæknis og mættu ekki í bólusetningu þannig að undir lok dags varð ljóst að til var blandað bóluefni sem myndi eyðileggjast ef það yrði ekki nýtt strax.

Eðlilega sinntu margir kallinu og fengu óvænt bólusetningu en þeir sem höfðu afþakkað sátu eftir að eigin sögn með sárt ennið. Spurður út í þetta segir Þórólfur, að að sjálfsögðu hafi bóluefnið verið notað.

„Auðvitað verður að nota bóluefni sem er tilbúið og mun eyðileggjast ef það er ekki notað strax. Því það gagnast allri heildinni að bólusetja sem flesta. Alltaf geti komið upp sú staða að yngra fólk sé bólusett þegar þessi staða kemur upp í stað eldri en við því er ekkert að gera. Það er mjög erfitt að eiga við þetta þegar fólk, sem er að bólusetja, gerir ráð fyrir ákveðnum fjölda en síðan mæta ekki allir í bólusetningu og það situr uppi með afgangsbóluefni sem er að renna út. Þá verður að kalla í fólk og hvetja það til að mæta í bólusetningu,“ segir Þórófur og bætir við að þessi hópur heilbrigðisstarfsmanna sem afþakkaði verði kallaður inn að nýju og engin hætta á að hann fái ekki bólusetningu. 

Bólusetningardagatal

Bólusetningarhópar 

mbl.is