Björgunarsveitir kasta mæðinni í góða veðrinu

Björgunarsveitir hafa ekki þurft að sinna neinum útköllum við gosstöðvarnar …
Björgunarsveitir hafa ekki þurft að sinna neinum útköllum við gosstöðvarnar í dag. Dauði tíminn nýtist vel í að safna kröftum eftir annasamar vikur, að sögn Hjálmars Hallgrímssonar vettvangsstjóra. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Engin útköll hafa borist björgunarsveitinni Þorbirni í Grindavík vegna gossins í Geldingadölum það sem af er degi. Hjálmar Hallgrímsson vettvangsstjóri segir við mbl.is að líklega séu um 2-300 bílar á svæðinu núna og hann á von á að bæti í nú þegar flestir klára vinnu.

Veðrið er gott á suðvesturhorninu og segir Hjálmar að líklega sé því að þakka að útköllin eru engin. 

„Já, þetta gengur bara sinn vanagang,“ segir Hjálmar. Hann segir að björgunarsveitarfólk í Þorbirni safni nú kröftum eftir annasamar vikur síðan fór að gjósa. 

Hraunið 15 metrar þar sem það er þykkast

Samkvæmt nýrri kortlagningu með dróna, sem eldfjallafræði- og náttúruvárhópur Háskóla Íslands stóð fyrir, fást gögn sem gefa til kynna þykkt nýju hraunbreiðunnar í Meradölum. Það er hraunið sem spýtist út úr þriðja gígnum sem myndaðist eftir að fór að gjósa. Gögnin voru tekin saman á laugardag. 

Þar sem hraunið er þykkast er það um 15 metra þykkt en því lengra sem hraunbreiðan teygir úr sér þynnist hraunið. Þar sem það er þynnst er það um og yfir einum metra að þykkt. Gögnin nýtast til þess að gróflega meta þykkt hraunsins og eiginleika þess, en með nánari samanburði við kortagögn frá því áður en gos hófst má gera nákvæmari útreikninga.

Þykkt hraunsins í Meradölum síðastliðinn laugardag, 10. apríl 2021. Gögnin byggja á drónakortlagningu með Matrice 300...

Posted by Eldfjallafræði og náttúruvárhópur Háskóla Íslands on Mánudagur, 12. apríl 2021


 

mbl.is