Hiti á Alþingi: „Hvaða vitleysa er þetta eiginlega?“

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Inga Sæland, þingmaður og …
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Inga Sæland, þingmaður og formaður Flokks fólksins. Ljósmynd/Samsett

Stór orð féllu á Alþingi í dag í umræðu um fátækt á Íslandi, sem Inga Sæland, þingmaður Flokks fólksins, efndi til. Inga hóf umræðuna á því að benda á hve skammt henni finnst aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa náð við að bjarga fólki frá fátækt í kjölfar kórónuveirufaraldursins. 

Inga sagði meðal annars að þrátt fyrir að Ísland stæðist ágætlega samanburð við önnur OECD-ríki hvað fátækt varðar sé samt sem áður til staðar hópur hér á landi sem verði að búa við fátækt, jafnvel sárafátækt.

Inga sagði einnig að áhersla ríkisstjórnarinnar hafi verið of mikil á fyrirtæki en ekki einstaklinga, sérstaklega ekki einstaklinga sem geta ekki unnið og verða að reiða sig á almannatryggingakerfið. Hún lagði Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, orð í munn og sagði að hann segði væntanlega að þeir einstaklingar væru svo fáir. Í kjölfar þess spurði hún hvers vegna væri þá ekki hægt að hjálpa fólki í þeim fámenna hópi. 

Segir mikið hafa verið gert fyrir tekjulága

Bjarni tók þá næstur til máls og byrjaði á því að segja að málefni fátækra á Íslandi væru mikilvægt nú sem alltaf. Því næst sagði Bjarni að samkomulag þyrfti að vera um hvaða hóp verið væri að tala um, hvort verið væri að tala um þá sem allra minnst hefðu milli handanna eða hvort verið væri að horfa á stærra svið.

Síðan rakti Bjarni þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur ráðist í á kjörtímabilinu, sér í lagi í kjölfar efnahagslægðar af völdum faraldursins. Hann minntist meðal annars á breytingu tekjuskatts fyrir þá tekjulægstu, hækkun skerðingarmarks barnabóta og hækkun örorku- og endurhæfingarlífeyris.

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata.
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata. mbl.is/Kristinn Magnússon

Segir hugmyndafræði Bjarna skaðlega

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, settist skömmu síðar í ræðustól og greip ummæli Bjarna, um „samkomulag um hvaða hóp“ verið er að ræða, á lofti. Sagði hún Bjarna ef til vill fastan í þerri gömlu og skaðlegu hugmyndafræði að kalla þá sem eru fátækir afætur og letingja. 

Bjarni brást þá ókvæða við og kallaði fram í: „Hvaða vitleysa er þetta eiginlega?“ Halldóra hélt áfram og spurði Bjarna hvort honum þætti fátækt einfaldlega óhjákvæmilegur hluti samfélagsins. 

Vill tala „af alvöru um gögn og staðreyndir“

Bjarni lokaði umræðunni með því að gagnrýna orð þingmanna Pírata, sem segja hann ekki skilja stöðu þeirra sem búa við fátækt. Þá sagðist hann bíða eftir því að þingmaður úr þeirra röðum kæmi í ræðustól og talaði fyrir því að tugþúsundir Íslendinga fengju borgaralaun, gerðu ekki neitt og væru bara vel settir af því.

Þá gagnrýndi Bjarni tillögur Viðreisnar í málefnum fátækra, sem allar snúast um eitt, að hans sögn: Evrópusambandið. Í aðildarríkjum ESB sagði Bjarni að staðan væri mun verri en hér á Íslandi. Hér á landi hefði tekist að bæta stöðu heimilanna og hækka neyslustig, ólíkt því sem tekist hefði innan ESB. 

mbl.is

Bloggað um fréttina