Kennari í MH smitaðist og 70 í sóttkví

Menntaskólinn við Hamrahlíð.
Menntaskólinn við Hamrahlíð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kennari í Menntaskólanum við Hamrahlíð greindist með kórónuveiruna í gærkvöldi. Fyrir vikið eru 70 nemendur við skólann komnir í úrvinnslusóttkví í tvo til fjóra daga.

Að sögn Steins Jóhannssonar, rektors MH, fann kennarinn fyrir einkennum á sunnudagskvöld og fór í skimun morguninn eftir. Hann kennir þremur hópum í skólanum og var ákveðið að senda þá alla í sóttkví.

Í kjölfarið var ákveðið, til að tefla ekki á tvær hættur, að hafa netkennslu í skólanum út þessa viku. Eitthvert starfsfólk í skólanum hefur haft samneyti sín á milli en sóttvarna hefur þó verið gætt í hvívetna. „Það verða allir fyrir framan tölvuskjáinn á morgun og stunda námið þannig,“ segir Steinn.

Steinn Jóhannsson, rektor MH.
Steinn Jóhannsson, rektor MH. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umræddur kennari hitti nemendur sína í síðustu viku, á fimmtudag og föstudag. „Enginn sem ég veit um er veikur og ég vona að þetta sé einangrað tilvik,“ bætir hann við. Stefnt er á hefðbundið skólahald á mánudaginn.

Þetta er í fyrsta sinn í vetur sem kennari við skólann smitast af veirunni. Í fyrra smitaðist einn starfsmaður sem var ekki í vinnu og hafði það engar afleiðingar.

mbl.is