Hópsmit í leikskólanum rakið til brots á sóttkví

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Næstu tveir til þrír dagar skipta sköpum, að sögn Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns, um hvort herða þurfi sóttvarnaaðgerðir innanlands.

Þrettán kórónuveirusmit greindust alls í gær og þar af voru átta sem greindust utan sóttkvíar. Hópsmit í leikskólanum Jörfa í Hæðargarði er rakið til einstaklings sem virti ekki sóttkví við komuna til Íslands.

Víðir segir að nú muni sóttvarnayfirvöld einbeita sér að því að koma sem flestum sem hópsmitinu tengjast í skimun. Ef í ljós kemur að hópsmitið hafi breitt úr sér um samfélagið geti verið tilefni til hertra aðgerða.

„Þetta er bara hópsmit, það er ekki hægt að kalla þetta neitt annað,“ segir Víðir við mbl.is um stöðuna í Jörfa.

„Við erum komin með 10 af þeim 13 [sem greindust í gær] sem tengjast því beint og við munum mögulega sjá einhverja tengingu við það hjá þessum þremur sem eru þarna fyrir utan, en svo virðist sem eitt og mögulega tvö þeirra smita séu þessu alveg ótengd.“

Hópsmitið rakið til sóttvarnalagabrots

Víðir segir að almannavarnir, smitrakningarteymi, sóttvarnalæknir og landlæknir hafi fundað í dag og sett saman aðgerðaáætlun sem miðar að því að koma sem flestum er tengjast hópsmitinu í skimun. Hann segir einnig að raðgreining hafi leitt í ljós hvaðan hópsmitið er upprunið. 

„Þetta er breska afbrigðið og tengist máli sem við vorum að vinna í er varðar sóttkvíarbrot við landamæraskimun.“

Hvaða sóttvarnalagabrot er það, geturðu farið nánar út í það?

„Það er aðili sem við eftirlit virtist ekki hafa virt sóttkví og lögregla hafði afskipti af honum. Við erum svo með raðgreiningu, sem tengir þetta saman. Viðkomandi kom til landsins um mánaðamótin.“

Næstu tveir dagar ráða úrslitum

Á fundi sóttvarnayfirvalda komu hertar sóttvarnaaðgerðir innanlands ekki til tals, að sögn Víðis. Hins vegar séu næstu tveir til þrír dagar „krítískir“ hvað það varðar. Komi í ljós að hópsmitið á Jörfa sé útbreitt um samfélagið geti komið til greina að herða aðgerðir. 

Smit hjá matvælafyrirtækinu Íslensku sjávarfangi hafa ekki dregið dilk á eftir sér, að sögn Víðis, ekki eins og sakir standa að minnsta kosti. 

„Við erum ekkert farin að ræða nýjar reglur. Næstu tveir dagar verða krítískir í þessu máli öllu saman. Við verðum bara að bíða og sjá hvað gerist, það þarf ekkert endilega að grípa til hörðustu aðgerðanna ef smitin eru bara afmarkað í þessum hópi. En ef smitin fara að dúkka upp með litla tengingu við þetta, þá er auðvitað full ástæða til að endurskoða málið,“ segir Víðir um smit gærdagsins, bæði í leikskólanum Jörfa og hjá Íslensku sjávarfangi.

mbl.is