Allt unglingastig Álftamýrarskóla í sóttkví

Álftamýrarskóli.
Álftamýrarskóli. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Nemandi í níunda bekk Álftamýrarskóla greindist með Covid-19 í gærkvöldi og tengist smitið hópsmiti á leikskólanum Jörfa. Þar sem smitið virðist vera langt gengið var ákveðið að senda allt unglingastig skólans í sóttkví en 9. bekkur var í skólabúðum á Laugarvatni þegar smitið kom upp.

Að sögn Helga Grímssonar, sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, var nemandinn í sóttkví og hafði verið frá því um helgina og því ekki farið í skólabúðirnar með skólasystkinum sínum í gærmorgun. Nemandinn var einkennalaus þegar hann fór í skimun í gær en við rannsókn á sýninu virtist sem það væri langt gengið og þótti því öruggara að senda samnemendur í sóttkví þrátt fyrir að nemandinn hafi ekki hitt þá síðan í síðustu viku en yfirleitt er miðað við 48 klukkustundir frá smiti.

Nemendur níunda bekkjar fóru með rútu frá Laugarvatni og beint í sýnatöku á Suðurlandsbraut í morgun. Foreldrum var boðið að hitta börn sín þar og fylgja þeim í sýnatöku en rútan mun svo fara með börnin í Álftamýrarskóla um kl. 12:30, þar sem foreldrar geta sótt þau.

Nemendur þurfa að vera í sóttkví þar til niðurstaða berst úr sýnatökunni og eiga ekki að umgangast aðra á heimilinu. Foreldrar voru beðnir að vera með grímu þegar þeir sæktu börnin og börnin beðin að bera grímu í bílnum.

Að sögn Helga var ákveðið að senda nemendur í áttunda og tíunda bekk skólans einnig í sóttkví þar sem nálægð er mikil meðal árganga á unglingastigi í Álftamýrarskóla. Sama gildir um starfsfólk skólans.

Líkt og hefðbundið er þurfa nemendur og starfsfólk að vera í sóttkví í viku en sýnataka er á sjöunda degi sóttkvíar.

mbl.is