Smit í Vallaskóla á Selfossi

Vallaskóli á Selfossi.
Vallaskóli á Selfossi. mbl.is/Sigurður Bogi

Nemandi í 4. bekk í Vallaskóla hefur greinst með Covid-19. Viðkomandi nemandi mætti í skólann á miðvikudagsmorgun, einkennalaus, og átti í samskiptum við nemendur í tveimur list- og verkgreinahópum í 4. bekk. 

Fram kemur á heimasíðu Vallaskóla að staðfestur grunur um smit varð þó ekki ljós fyrr en forráðamaður hafði samband við skólann 50 mínútum síðar. Var nemandinn þá umsvifalaust sendur heim. Hann greindist síðan með kórónuveiruna í gærkvöldi. Í kjölfarið fór skólastjóri yfir stöðuna með smitrakningarteymi sóttvarnalæknis. 

Upplýsingum var því næst komið áleiðis til forráðamanna þeirra barna og starfsmanna sem höfðu mögulega verið berskjaldaðir fyrir smiti á sama stað og á sama tíma. Um er að ræða 12 nemendur og þrjá starfsmenn skólans. Því fara aðeins 15 einstaklingar í sóttkví í bili. 

Í vikunni voru allir nemendur í 2. og 4. bekk skólans sendir í úrvinnslusóttkví eftir að grunur kviknaði um smit hjá tveimur nemendum. Sóttkvínni var aflétt þegar fyrir lá að umræddir nemendur hefðu fengið neikvæða niðurstöðu úr sýnatöku. 

mbl.is