Sígarettuglóð dugir til

Hér má sjá kort af Heiðmörk og áætluðu umfangi svæðisins …
Hér má sjá kort af Heiðmörk og áætluðu umfangi svæðisins sem brann. Kort/Kristinn Garðarsson

Enn á eftir að koma í ljós hversu stórt hlutfall trjáa á svæðinu við Hjalladal í Heiðmörk muni deyja, í kjölfar gróðurelda, en framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur telur að svæðið muni „ná sér“ þó óvíst sé hversu langan tíma batinn muni taka. Framkvæmdastjórinn bendir á að stundum þurfi einungis lítinn neista, t.d. frá sígarettu, til þess að kveikja stórt bál.

Þegar blaðamaður náði tali af Auði Kjartansdóttur, framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Reykjavíkur, var hún, ásamt fleiri starfsmönnum félagsins, á vettvangi að meta aðstæður. Þau hafa ekki séð verksummerki um að eldur hafi kviknað að nýju síðan slökkvistarfi lauk í nótt.

„Við munum fara yfir alla okkar verkferla og reyna að læra af þessu. Það er ljóst að það hafi verið um töluvert svæði að ræða og tíminn á eftir að leiða í ljós hversu stórt hlutfall trjáa deyr. Ef börkurinn hitnar þá skemmist vaxtarvefurinn og tréð deyr, þó það sé kannski enn brum á trjánum,“ segir Auður.

„Jarðvegur er frjór á þessu svæði og svæðið mun ná sér. Skógræktarfélag Reykjavíkur er 120 ára á þessu ári og við munum halda okkar uppbyggingu í heiðmörk áfram enda hefur undanfarið ár sýnt mikilvægi útivistarsvæðisins,“ segir Auður og vísar þá til aukins útivistaráhuga landsmanna í kórónuveirufaraldrinum.

Félagið mun, að sögn Auðar, skerpa á verkferlum með öðrum aðilum sem koma að málinu, svo sem slökkviliðinu og Orkuveitunni.

Auður Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur.
Auður Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur. Ljósmynd/Aðsend

Segir töluvert forvarnastarf búið að eiga sér stað

Áætlað er að eldurinn hafi læst sig í 56 hektara svæði en Heiðmörk er 3.200 hektarar alls. Aðspurð segir Auður ekki vitað hversu langan tíma það muni taka svæðið að ná sér.

Um 200 manns komu að því að ráða niðurlögum eldsins í gær. Auður segist afar þakklát fólkinu fyrir að „vernda þetta mikilvæga svæði fyrir okkur öll.“

Spurð hvort mögulegt sé að fyrirbyggja að svona gróðureldar komi upp, til dæmis með frekari grisjun eða gerð varnarlína segir Auður:

„Það er töluvert starf búið að eiga sér stað. Nú munum við fara yfir alla verkferla og sjá hvað betur má fara. Eins ætla viðbragðsaðilar, hagsmunaaðilar og við að hittast og fara í sameiningu yfir þetta.“

Í þessu skyni bendir Auður á vefsíðuna Grodureldar.is þar sem upplýsingar um forvarnir er að finna. 

Munu skoða bætt aðgengi

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, sagði í samtali við mbl.is í morgun að það hefði verið erfitt fyrir viðbragðsaðila að koma að vettvangi í gær.

Er mögulegt að bæta aðgengið fyrir slökkviliðið?

„Þetta er eitt af því sem við munum skoða með viðbragðsaðilum á næstu dögum og vikum,“ segir Auður.

Hún biðlar til fólks að fara varlega með eld, sérstaklega nálægt gróðri. Hún bendir á að oft þurfi einungis lítinn neista til að kveikja stórt bál.

„Reykingar eða annað slíkt geta stundum dugað til.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert