Eldurinn læsti sig í 56 hektara svæði

Slökkvistarfið skilaði bersýnilega árangri en eldurinn skildi eftir sig verulega …
Slökkvistarfið skilaði bersýnilega árangri en eldurinn skildi eftir sig verulega eyðileggingu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skógræktarfélag Reykjavíkur telur að gróðureldurinn sem kviknaði í Heiðmörk í gær hafi farið yfir 56 hektara svæði. Félagið hvetur fólk til þess að fara varlega með eld í grennd við gróður.

Á hluta svæðisins sem brann var aðeins lággróður svo sem gras og lúpína.

„Annars staðar voru stöku tré eða þéttara skóglendi. Við upptökin fór eldurinn hratt yfir í grasi, án þess að valda miklum skaða á trjágróðri. Þegar á leið færðist eldurinn hins vegar í aukana og stórskemmdi eða eyddi trjám og runnum. Skemmdir á trjágróðri á svæðinu þar sem eldurinn herjaði eru því mismiklar,“ segir í tilkynningu frá Skógræktarfélagi Reykjavíkur.

Stafafuran sáir sér hratt 

Eins og mbl.is greindi frá í morgun er möguleiki á að eldur kvikni að nýju á svæðinu. Starfsmenn Skógræktarfélags Reykjavíkur munu kanna ástand svæðisins í dag, að því er segir í tilkynningunni. „Mikilvægt er að fylgjast með því að ekki leynist eldglæður í mosa eða öðrum lággróðri.“

Svæðið sem brann í gær er í Hjalladal en algengasta trjátegundin er stafafura. 

„Þekkt er að stafafura sáir sér hratt eftir elda sem fræ hennar þola vel. Aðrar tegundir eru meðal annars ösp og greni. Gróðursetningar á svæðinu hófust árið 1986 og voru þarna nokkrir gamlir og vel grónir landnemareitir. Þá var jólaskógur Skógræktarfélags Reykjavíkur á þessu svæði í nokkur ár, fyrir örfáum árum síðan,“ segir í fyrrnefndri tilkynningu.  

„Skógræktarfélag Reykjavíkur hvetur gesti Heiðmerkur til að hugsa vel um friðlandið og fara varlega með eld, sérstaklega þegar gróður er jafn þurr og nú.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert